Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum

Reykjavík, 24. mars 2017
Tilvísun: 201703-0015


Efni: Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum, 119. mál

Alþýðusamband Íslands skilaði inn umsögn árið 2010 og aftur árið 2015 um frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972 þegar það var lagt fram á Alþingi.
Það frumvarp sem er hér til umsagnar, þingskjal 178 – 119. mál, er efnislega það sama og fyrri frumvörp og er því umsögn ASÍ efnislega svipuð og fyrri umsagnir sambandsins.

Enn og aftur leggur ASÍ áherslu á að markmið orlofslaganna á sínum tíma var að veita þeim konum sem veittu heimili forstöðu færi á að taka orlof líkt og launafólk hafði samið um við atvinnurekendur. Tilgangur laganna var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum rétt til orlofs lík og launafólki. Um félagsleg réttindi var því að ræða fyrir þennan hóp sem hann gat ekki öðlast á grundvelli kjarasamnings. Í greinagerð með frumvarpinu, sem hér er til umsagnar, kemur fram að vegna breytinga á vinnumarkaði og stöðu kvenna í dag má ætla að stór hluti þeirra sem þegið hafa húsmæðraorlof undanfarna áratugi eigi lögbundin rétt til orlofs.

ASÍ tekur undir það að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist stórlega allt frá byrjun áttunda áratugarins og að samfélagið hefur tekið örum breytingum á undanförnum áratugum. Staða kynjanna er önnur í dag en hún var þegar lögin um orlof húsmæðra var sett árið 1960, varðandi heimilishald og barnauppeldi. Þrátt fyrir breytta tíma, þá því miður sýna kannanir að ennþá eru ólaunuð umönnunarstörf; heimilisstörf og umönnun barna, frekar á ábyrgð kvenna en karla.

ASÍ lagði til í umsögn sinni frá 6. mars 2015 að áður en Alþingi tæki ákvörðun um að afnema réttindi tiltekinna hópa í þjóðfélaginu, að kannað yrði hvaða áhrif slík aðgerð hefði fyrir þann hóp og einnig að það lægi fyrir hversu fjölmennur sá hópur er sem ákvörðunin hefur áhrif á. Sambandið hefur ekki upplýsingar um að slík könnun hafi verð gerð.

ASÍ vill því ítreka tillögu sína frá 6. mars 2015 að gerð verði úttekt á hversu fjölmennur sá hópur er sem hefur beina hagsmuni af orlofi húsmæðra samkvæmt núgildandi orlofslögum. Einnig þarf að fara fram úttekt á hvernig þeir hópar eru samansettir sem hafa nýtt sér orlofsréttindi síðast liðin ár. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir getur sambandið tekið afstöðu til þess hvort breyta þurfi eða afnema núverandi lög um orlof húsmæðra eða ekki.

Að lokum bendir ASÍ á að ef frumvarpið nær fram að ganga og lög um orlof húsmæðra verði felld úr gildi í núverandi mynd þar sem þau eru ekki að ná markmiðið sínu, þá verði þeim breytt og það fjármagn sem veitt hefur verið í orlofssjóð húsmæðra nýtist á annan hátt því barnafólki sem ekki hefur tök á launuðu orlofi.


F.h. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur