Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra

Reykjavík, 6. mars 2015
Tilvísun: 201502-0024


Efni: Frumvarp til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum, 339. mál

ASÍ bendir á, líkt og í umsögn sinni frá 04.06.2010, þar sem fjallað er um sama mál, að markmiðið með orlofslögum á sínum tíma var að veita þeim konum sem veittu heimili forstöðu færi á að taka orlof líkt og launafólk hafði samið um við atvinnurekendur. Tilgangur laganna var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum rétt til orlofs líkt og launafólki. Um félagsleg réttindi er því að ræða fyrir þennan hóp sem hann gat ekki öðlast á grundvelli kjarasamninga.

Í greinargerð með frumvarpi því sem óskað er umsagnar um kemur fram að vegna breytinga á vinnumarkaði og stöðu kvenna má ætla að stór hluti þeirra sem þegið hafa húsmæðraorlof undanfarinn áratug eigi lögbundinn rétt til orlofs. Einnig kemur fram í greinargerðinni að orlof húsmæðra standi jafnt þeim konum til boða sem starfa heima við eða á almennum vinnumarkaði.

ASÍ tekur undir það að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist stórlega allt frá byrjun áttunda áratugarins og að samfélagið hefur tekið örum breytingum á undanförnum áratugum. Staða kynjanna er önnur í dag en hún var þegar lögin um orlof húsmæðra var sett árið 1960, varðandi heimilishald og barnauppeldi. Þrátt fyrir breytta tíma, þá því miður sýna kannanir að ennþá eru heimilisstörf og umönnun barna frekar á ábyrgð kvenna en karla.

Þrátt fyrir örar samfélagsbreytingar og að atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er meiri en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við þá vinna íslenskar konur ennþá fleiri ólaunaðar vinnustundir við heimilisstörf en karlar.

Alþýðusambandið telur nauðsynlegt að áður en Alþingi tekur ákvörðun um að afnema réttindi tiltekinna hópa í þjóðfélaginu, að kannað sé hvaða áhrif slík aðgerð hefur fyrir þann hóp og einnig að það liggi fyrir hversu fjölmennur sá hópur er sem ákvörðunin hefur áhrif á.
Í 6. gr. núgildandi orlofslaga segir m.a.:
Þegar valið er úr umsóknum, skulu orlofsnefndir hafa til hliðsjónar barnafjölda, aldur barna og aðrar félagslegar aðstæður kvennanna.

ASÍ leggur til að úttekt verði gerð á því hvernig sá hópur er samansettur sem hefur nýtt sér orlofsréttindi húsmæðra sl. fimm ár. Hvort að hópurinn uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fram í lögunum.

Á grundvelli framangreinds telur ASÍ nauðsynlegt að gerð verði úttekt á hversu fjölmennur sá hópur er sem hefur beina hagsmuni af orlofi húsmæðra, samkvæmt núgildandi orlofslögum. Einnig þarf að fara fram úttekt á hvernig þeir hópar eru samansettir sem hafa nýtt sér orlofsréttindin síðast liðin ár. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir getur sambandið tekið afstöðu til þess hvort breyta þurfi eða afnema núverandi lög um orlof húsmæðra eða ekki.

Að lokum bendir ASÍ á að ef frumvarpið nær fram að ganga og lög um orlof húsmæðra verði felld úr gildi í núverandi mynd þar sem þau er ekki að ná markmiði sínu, þá verði þeim breytt og það fjármagn sem veitt hefur verið í orlofssjóð húsmæðra nýtist á annan hátt því barnafólki sem ekki hefur tök á launuðu orlofi.

F.h. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur