Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni (heildarlög)

Reykjavík: 07.01.2014
Tilvísun: 201311-0048 
 
Efni: Frumvarp til laga um aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni (heildarlög), 158. mál.
 
Alþýðusamband Íslands á fulltrúa í ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur sbr. lög nr. 27/1999 sem frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi. Framangreind ráðgjafarnefnd hefur nokkrum sinnum verið kölluð saman undanfarna mánuði og hefur þá m.a. fengið að fylgjast með smíði frumvarpsins í forsætisráðuneytinu og fulltrúar fengið að koma á framfæri sínum athugasemdum sem að einhverju leyti hefur verið tekið tillit til. 

Með vísan í framangreint gerir Alþýðusamband Íslands ekki athugasemdir við efni frumvarpsins sem slíks að öðru leyti en því að lagt er til að frumvarpinu verði breytt á þá leið að fulltrúum í svokölluðu Regluráði verði fjölgað úr sex í sjö og að sjöundi fulltrúinn verði skipaður skv. tilnefningu frá BSRB sem myndi tryggja aðkomu sjónarmiða sem ASÍ telur mikilvægt að fá á borð Regluráðsins. 
 
Greinargerð:
Hvað varðar hið pólitíska markmið frumvarpsins sem vel má merkja sé það lesið með hliðsjón af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í kjölfarið samþykktrar aðgerðaráætlunar hennar frá 24. maí 2013, telur Alþýðusamband Íslands að ekki sé hægt að samsinna því að reglubyrði á íslenskt atvinnulíf sé almennt  úr hófi. Skoðun þessi er reist á þeirri forsendu að regluverki er ætlað að auka efnahagslega og félagslega velferð þess samfélags sem regluverkið setur. Alþýðusamband Íslands telur ekki að núgildandi regluverk sem gildir með einum eða öðrum hætti um íslenskt atvinnulíf fari almennt út fyrir það meðalhóf sem verður að ríkja varðandi velferð samfélagsins annars vegar og þess kostnaðar og fyrirhafnar sem atvinnulífið tekur á sig til að uppfylla kröfur regluverksins hins vegar. 
Alþýðusamband Íslands gerir skýran greinarmun á milli þess að huga að einföldun og skilvirkni og bættri framkvæmd regluverks annars vegar og að draga úr kröfum og eftirliti með afnámi og/eða breytingu á reglum hins vegar. Hið fyrrnefnda er gott og gilt markmið sem Alþýðusamband Íslands telur vert að ráðast í og mun beita sér fyrir í áðurnefndu Regluráði að verði ráðandi verkefni þess enda gangi það ekki á það meðalhóf sem Alþýðusamband Íslands telur nú ríkja á milli regluverksins sem gildir um atvinnulífið hér á landi og samfélagslegum ávinningi regluverksins sem lítur fyrst og fremst að öryggis- og samkeppnissjónarmiðum. 

Framangreindu, um að ekki sé sérstök ástæða til að létta á reglubyrði íslensks atvinnulífs til stuðnings og ráðast í einhvers konar „afreglun“ (e. de-regulation) má benda á meginniðurstöður og sjónarmið erlendra sérfræðinga frá málþingi forsætisráðuneytisins og Viðskiptaráðs um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið sem haldið var dagana 2.-3. september sl. Rauður þráður í niðurstöðum málþingsins voru á þá leið að ekki væri sérstök ástæða til að draga úr efnislegum kröfum sem regluverkið hér á landi leggur á atvinnulífið, heldur væri frekar ástæða til að tryggja þjálli og vandaðri framkvæmd framkvæmdaraðila, s.s. ráðuneyta og sjálfstæðra stofnana. Í raun voru niðurstöðurnar það skýrar að einn erlendu sérfræðinganna sem ávarpaði málþingið og veitti vinnuhópum ráðgjöf, Michael Gibbons formaður Regulatory Policy Committee í Bretlandi, ávarpaði málþingið sérstaklega og vakti máls á því að sér kæmi á óvart að nær engar athugasemdir hafi verið gerðar í vinnuhópunum um að þörf væri á að draga úr þeim efnislegu kröfum sem regluverkið gerði til atvinnulífsins. 

Alþýðusamband Ísland bendir á að eigi að taka upp einhvers konar hlutlæga nálgun varðandi mat nýrra reglna og almennrar reglubyrði á atvinnulífið eins og lagt er til í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verði að undirbúa þá vinnu vel með því að búið sé að móta trúverðugt og óumdeilt áhrifamat (e. impact assessment). Byggist þessi skoðun m.a. á varnaðarorðum Nick Malyshev sérfræðings hjá OECD sem ávarpaði nefnt málþing 2.-3. september sl. Skýrlega kom fram hjá nefndum Malyshev að óumdeilt áhrifamat væri nauðsynlegur undanfari þeirrar stefnu sem er iðkuð með „einn inn, einn út“ (e. one-in, one-out) aðferðarfræðinni og boðuð er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. 
 
Virðingarfyllst, 
Halldór Oddsson,  
lögfræðingur hjá ASÍ