Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um aðför og gjaldþrotaskipti (árangurslaust fjárnám)

Reykjavík 13.4 2010

Mál: 201003-0032

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um aðför og gjaldþrotaskipti (árangurslaust fjárnám) (447 mál.)

Þær breytingar sem réttarfarsnefnd leggur til eru flestar til bóta. ASÍ gerir einungis athugasemd við 19.gr. Þar er lagt til að hámark bóta vegna slita á vinnusamningi miðist við lög eða viðeigandi kjarasamning. Um rökstuðning er vísað til dóms Hæstaréttar frá 1991. Þar segir:

Með samningi 30, maí 1988 réð áfrýjandi sig framkvæmdastjóra hjá Goðgá hf. og hóf strax vinnu. Uppsagnarfrestur samkvæmt samningnum var 6 mánuðir. Hinn 22. júní 1988 fór félagið fram á greiðslustöðvun og var vent heimild til hennar í tvo mánuði frá 23. júní. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta að ósk stjórnar þess hinn 15. ágúst 1988. Óumdeilt er, að áfrýjanda var sagt upp vinnu sinni vegna gjaldþrotsins. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. gjald­þrotalaga nr. 6/1978 getur búið sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum eða sanngjörnum fresti, og gildir það, þótt þrotamaður hafi samið um lengri frest, nema samningi um lengri frest hafi verið þinglýst eða hann skráður hjá opinberum aðila með hliðstæðum hætti. Af gögnum málsins er ljóst, að framtíð félagsins var ótrygg, þegar ráðning áfrýjanda kom til. Með tilliti til þess og atvika að öðru leyti má telja 3 mánuði sanngjarnan uppsagnarfrest af hálfu búsins, og réttur áfrýjanda til launa, sem honum svarar, er ekki vefengdur í málinu. Samkvæmt þessu ber að staðfesta þá niðurstöðu hins áfrýjaða úrskurðar, að við skipti á þrotabúi Goðgár hf. eigi áfrýjandi forgangskröfu til þriggja mánaða launa, sem nema 676.190 krónum, með vöxtum, eins og í dómsorði greinir.“

Atvik þessa dómsmáls voru sérstök fyrir þær sakir að samið var um langan uppsagnarfrest eftir að ljóst var að framtíð fyrirtækisins var ótrygg. Eðlileg og réttmæt sjónarmið í gjaldþrotarétti leiða til þess að heimilt er að takmarka gildi slíkra samninga. Þau sjónarmið réttlæta hins vegar ekki, að allir uppsagnarfrestir sem samið er um undir eðlilegum kringumstæðum, skuli takmarkast við lágmarksákvæði kjarasamninga. Slík lágmarksákvæði tryggja öllu launafólki tiltekin lágmarksréttindi en tilgangur hefur aldrei og er ekki sá að slík ákvæði beri að skilja sem hámarksákvæði sem banni samninga um persónubundin og betri ráðningarkjör. Slík túlkun felur í sér veruleg frávik frá meginreglum á íslenskum vinnumarkaði.

Af ofangreindum ástæðum leggst ASÍ eindregið gegn ofangreindum breytingum á 112.gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Áskilinn er réttur til þess að koma að frekari athugasemdum við þingmál þetta eftir því sem meðferð þess á Alþingi miðar.

Virðingarfyllst,

Magnús M. Norðdahl hrl.,

lögfræðingur ASÍ