Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

Reykjavík, 31. október 2018
Tilvísun: 201810-0020

Efni: Frumvarp til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð), 157. mál

Í umsögn sem Vinnueftirlitið sendi velferðarráðuneytinu um efni framangreinds frumvarps segir m.a.:

„Með lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir hefur notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verið lögfest og lög nr. 59/2992 jafnframt fallið úr gildi. Þar sem ekki er lengur um bráðabirgðaverkefni að ræða þá getur Vinnueftirlitið ekki fallist á að framlengja frávik frá lágmarksreglum um vinnutíma vegna þess starfsfólks sem vinnur við að aðstoða notendur NPA.

Þær lágmarkreglur um vinnutíma sem eru að finna IX. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, voru settar til þess að stuðla að heilbrigði starfsmanna. Vinnueftirlitið getur ekki fallist á það að hægt sé að víkja frá lágmarksréttindum starfsmanna skv. lögum nr. 46/1980 nema fyrir því séu veigamikil rök, t.d. veigamiklir almannahagsmunir. Að mati Vinnueftirlitsins hefur ekki verið sýnt fram á slíkt.“

Alþýðusambandið tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Vinnueftirlitsins að aðstoðarfólk notenda NPA eigi ekki síður en annað launafólk að njóta verndar í starfi, þ.m.t. hvað varðar hvíld frá störfum og lengd vinnutíma.
Í ljósi framanritaðs og að höfðu samráði við Starfsgreinasamband Ísland leggur Alþýðusamband Íslands til að efni frumvarpsins verði hafnað.


Virðingarfyllst,
Halldór Grönvold,
aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ