Stefna ASÍ

Frumvarp til laga um ábyrgðarmenn


Reykjavík 4.3 2009

200902-0044

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um ábyrgðarmenn (125 mál).

Alþýðusamband Íslands styður framgang þessa máls. Nokkrar athugasemdir eru þó gerðar.

ASÍ er sammála þeirri megin hugsun sem á bak við 1.mgr. 8.gr. býr og sem kemur fram í greinargerð með ákvæðinu en orðalag ákvæðisins getur kallað á misskilning. Þar segir að aðför verði ekki gerð í fasteign þar sem „ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans“. Skilja má ákvæðið þannig að tvær fasteignir og jafnvel fleiri geti með ákvæðinu verið undanskyldar meðan ætlunin virðist vera sú að undanskilja það íbúðarhúsnæði þar sem ábyrgðarmaður og eftir atvikum börn þau sem hann er framfærsluskyldur við og maki ef honum er til að dreifa, halda sameiginlegt heimili. Einnig má velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að undanskilja allt íbúðarhúsnæði óháð þörfum viðkomandi fjölskyldu, stærð eða dýrleika.

Skv. 8.gr. tekur aðfararbann til allra persónulegra ábyrgða. Væntanlega eiga frumvarpsflytjendur við persónulegar ábyrgðir skv. lögunum og ekki aðrar en einstaklingar geta tekið á sig persónulegar ábyrgðir með ýmsum örðum hætti en þeim sem lögin geyma. Ákvæðið þarfnast skýrleika hvað þetta varðar.

Athygli er vakin á því, að algeng form ábyrgðar hafa lengi verið víxlar þar sem aðalskuldari er samþykkjandi og þau sem gangast í ábyrgð útgefandi og ábyrgðarmenn en nokkuð hefur dregið úr slíkum ábyrgðum. Kveða þarf skýrt á um það hvort lögin taki til víxilábyrgða.

Athygli er að lokum vakin á því, að lögin geyma ekki ákvæði um það hverjar afleiðingar þess eru ef lánveitandi uppfyllir ekki skyldur sínar skv. 4, 5 og 6.gr.