Stefna ASÍ

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018

Reykjavík 18. desember 2017
Tilvísun: 201712-0010

 

Efni: Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018, 1. og 3. mál

Alþýðusamband Íslands leggur í mati sínu á stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum áherslu á að hún undirbyggi á hverjum tíma annars vegar hinn efnahagslega stöðugleika sem verji kaupmátt launafólks og hins vegar hinn félagslega stöðugleika sem tryggi velferð og lífskjör.

Samspil þessara tveggja þátta er lykilatriði til að skapa grundvöll að sátt og stöðugleika á vinnumarkaði.

Mat greiningaraðila á efnahagsþróuninni er samdóma um að toppi hagsveiflunnar hafi verið náð en að áfram verði þó góður vöxtur í hagkerfinu á næstu árum og gerir sú þjóðhagsspá sem fjárlög byggja á sömuleiðis ráð fyrir því. Áfram er því nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda ýti ekki undir ofþenslu og óstöðugleika og sé samstillt  peningamálastefnu Seðlabankans. Að öðrum kosti verða afleiðingarnar og viðbrögð Seðlabankans fyrirsjáanleg. Verðbólguþrýstingur eykst, vextir hækka og þrýstingur á krónuna eykst.

Í frumvarpinu er ekki lagt sérstakt mat á áhrif hagsveiflunnar á ríkisreksturinn. Eins og bæði Seðlabankinn og Fjármálaráð hafa bent á, er nauðsynlegt að meta aðhaldsstig opinberra fjármála að teknu tilliti til þeirra breytinga sem sveiflur í þjóðarbúskapnum hafa á afkomuna til að fá rétta mynd af áhrifum þeirra á þjóðarbúskapinn. Undanfarin ár hefur að teknu tilliti til hagsveiflunnar verið slaki á aðhaldi ríkisfjármálanna. Mat Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var að þau fjárlög sem lögð voru fram af fyrri ríkisstjórn í september sl. fælu í sér aukið aðhald ríkisfjármálanna þar sem hagsveifluleiðréttur frumjöfnuður batnaði milli ára. Hins vegar var það mat AGS að leiðrétt fyrir hagsveiflunni mætti áætla að ríkissjóður yrði á næsta ári rekinn með einungis um 0,7% afgangi. Frumvarp núverandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir að dregið verði úr afgangi af ríkisrekstrinum um 9 milljarða króna og afgangurinn verði sem nemur 1,3% af vergri landsframleiðslu samanborið við 1,6% afgang í fyrra frumvarpi. Núverandi áætlanir stjórnvalda geri því ráð fyrir minna aðhaldi ríkisfjármálanna. Seðlabankinn varaði í nýlegum peningamálum við þessari stöðu:

Í kosningabaráttunni voru hins vegar settar fram margvíslegar hugmyndir um aukin útgjöld eða lækkun skatta, í mörgum tilfellum án þess að ljóst væri í hvaða mæli slíkar breytingar eru fjármagnaðar og í hvaða mæli þeim er ætlað að koma fram á næsta ári eða síðar á kjörtímabilinu. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að þótt hagvöxtur sé hægari en hann var í fyrra er hann enn mikill. Framleiðsluþættir eru fullnýttir og spenna því enn nokkur í þjóðarbúinu og horfur á að svo verði áfram bróðurpart spátímans. Minna aðhald í ríkisfjármálunum mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að vextir og gengi krónunnar verða hærri en ella hefði orðið. [1]

Ljóst er að sú ríkisfjármálastefna sem fylgt hefur verið á undanförum árum hefur að mestu byggt á þensludrifnum aðgerðum á tekjuhlið fjárlaganna þar sem skattkerfisbreytingar s.s. afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og lækkanir á neyslusköttum og tollum hafa veikt tekjustofna ríkisins. Afleiðingarnar eru að þeir nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til velferðar og innviða þegar tekið hefur verið tillit til stöðu hagsveiflunnar. Aðhaldi hefur því verið beitt með því að ráðast ekki í brýnar úrbætur í velferðarmálum, s.s. heilbrigðis- og húsnæðismálum og veikja tekjujöfnunartæki skattkerfisins með því að draga úr stuðningi í barna- og vaxtabótakerfunum. Alþýðusambandið telur að með þessari stefnu hafi hinum félagslega stöðugleika verði verulega ógnað og varar við þeim afleiðingum sem það gæti haft  á vinnumarkaði í komandi kjaraviðræðum

 

Hætt er við því að ef hægir á í efnahagslífinu munu tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna núverandi útgjöld og við blasir niðurskurður eða aukin skattheimta þvert á hagsveifluna.

Stjórnvöld eru meðvituð um stöðuna eins og fram kemur í eftirfarandi texta úr  fjárlagafrumvarpinu:

Þrátt fyrir að efnahagsleg skilyrði séu hagfelld og afkoma ríkissjóðs og hins opinbera hafi batnað á undanförnum árum þarf að hafa í huga að staða og horfur geta breyst á skömmum tíma. Ísland er lítið og sveiflukennt hagkerfi og sveiflujöfnun í ríkisfjármálum hér á landi hefur að mestu leyti átt sér stað á tekjuhlið ríkissjóðs. Á útgjaldahlið ríkissjóðs hafa það fyrst og fremst verið útgjöld vegna atvinnuleysisbóta, auk barna- og vaxtabóta sem hafa tekið breytingum í takt við hagsveifluna, en að öðru leyti eru útgjöldin að miklu leyti tregbreytileg til skamms tíma. Brottfall nokkurra tekjustofna á undanförnum árum gerir það einnig að verkum að þunginn er orðinn mjög mikill á meginskattstofna eins og virðisaukaskatt, tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald. Það felur í sér að þegar um hægist í efnahagslífinu taka tekjurnar mun stærri dýfu en útgjöldin með tilheyrandi áhrifum á afkomu til hins verra og skuldasöfnun hefst að nýju.[2]

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð sjást þess ekki merki í frumvarpinu að bregðast eigi við þessum veikleika ríkisfjármálanna.

Sú útgjaldaaukning sem lögð er til í núverandi frumvarpi byggir fyrst og fremst á því að draga úr afgangi ríkisrekstrarins og minnka þar með aðhald eins og hér hefur verið lýst. Auk þess er dregið úr tekjuöflunaráformum fyrri ríkisstjórnar þar sem m.a. er hætt við áform um að færa ferðaþjónustutengda starfsemi í efra þrep virðisaukaskatts sem skilað hefði um 18 milljörðum króna í ríkissjóð á ársgrundvelli. Engin áform eru því uppi um að styrkja tekjugrunn ríkissjóðs til frambúðar til að undirbyggja hinn efnahagslega stöðugleika og skapa svigrúm fyrir þær nauðsynlegu aðgerðir sem ráðast þarf í til að treysta hinn félagslega stöðugleika. ASÍ lýsir undrun sinni á þeirri forgangsröðun stjórnvalda sem birtist í þessu og varar við afleiðingunum.


Alþýðusambandið leggur í þessu samhengi áherslu á eftirfarandi þætti:  

 • Skattkerfisbreytingar verði endurskoðaðar til fjármögnunar á nauðsynlegum velferðarumbótum og þar m.a. horft til þess að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins og tryggja að dregið verði úr skattbyrði lægri tekna sem aukist hefur verulega undanfarin ár eins og m.a. kemur fram í nýlegri skýrslu hagdeildar ASÍ um skattbyrði launafólks sl. tvo áratugi.
 • Barna- og vaxtabótakerfin verði efld sem mikilvæg tekjujöfnunartæki ekki síst fyrir ungt fólk.
  • Þrátt fyrir að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að að hækka viðmiðunarfjárhæðir barnabóta um 8,5% og tekjuskerðingarmörk um 7,4% er áætlað að útgjöld til barnabóta lækki um ríflega 200 milljónir frá yfirstandandi ári. Í því samhengi má benda á að tekjuskerðingarmörk barnabóta hafa lækkað verulega að raungildi en þau hafa frá verið óbreytt frá árinu 2013 á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um tæplega 40%. Útgjöld til barnabóta halda því áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár og fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur að fækka. Verulega hefur því dregið úr stuðningi og tekjujöfnunarhlutverki barnabótakerfisins á liðnum árum.  Nú er svo komið að tekjuskerðing barnabóta mun á næsta ári m.v. áform frumvarpsins hefjast við tæplega 241.000 kr. mánaðartekjur foreldris sem er langt undir lágmarkslaunum fyrir fullt starf á vinnumarkaði sem eru nú 280.000 kr. og verða frá og með 1. maí 2018   300.000. Gera má ráð fyrir að hjón með tvö börn, sem bæði hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fái saman um 3.000 krónur í barnabætur á mánuði.  Í þessu samhengi má einnig benda á að fæðingatíðni hér á landi hefur farið hratt lækkandi á undanförnum árum sem mun hafa neikvæðar afleiðingar fyrir aldurssamsetningu þjóðarinnar til framtíðar ef ekki verður breyting á. 
  • Framlög til vaxtabóta lækka um 2 milljarða króna frá fyrra ári og hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið lækkað um 67% að raungildi frá árinu 2013 og heimilum sem fengu greiddar vaxtabætur fækkaði um tæplega 16.000 milli áranna 2013 og 2016 og gera má ráð fyrir að þeim haldi áfram að fækka. Frumvarpið gerir ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir og eignarmörk í vaxtabótakerfinu verði óbreytt á milli ára en þau hafa rýrnað verulega í samanburði við laun og fasteignaverð á undanförnum árum. Eignarviðmið (eignarskerðingarmörk) hafa einungis hækkað um 12,5% og bótafjárhæðir (hámarksbætur) hafa verið óbreyttar frá árinu 2010 á sama tíma og fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur t.a.m. hækkað um ríflega 90%, almennt verðlag hefur hækkað um 23% og launavísitala hefur hækkað um tæplega 68%.  Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í sínu húsnæði (20%) fær í dag lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.
 • Húsnæðisbætur til leigjenda: Bótafjárhæðir og tekjuviðmið fylgi þróun launa og leiguverðs.
  • Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir framlögum til hækkunar á bótafjárhæðum húsnæðisbóta né skerðingarmarka vegna tekna sem þýðir að dregið er úr stuðningi við leigjendur að raunvirði og fækka mun í hópi þeirra sem rétt eiga á stuðningi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til húsæðisbóta fari lækkandi til ársins 2020.
 • Almennar íbúðir: Framlög verði hækkuð til að mæta hækkun byggingarkostnaðar og aukin til að fjölga íbúðum.
  • Gert er ráð fyrir 3 milljarða stofnframlagi ríkisins til almenna íbúðakerfisins til þess að efna loforð sem gefin voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 2015. Yfirlýsingin miðaði við framlög til byggingar á 600 íbúðum á ári og var við gerð samninganna miðað við að til þeirra þyrfti um 3 milljarða króna. Byggingarkostnaður hefur hins vegar hækkað um ríflega 8% skv. byggingarvísitölu frá þeim tíma og því ljóst að framlagið dugar ekki til byggingar á þeim fjölda íbúða sem lofað var og þarf því að endurskoða í samræmi við það.
  • ASÍ hefur ítrekað lýst því yfir að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áform eru um eða um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin til að mæta uppsafnaðri þörf og slá á þenslu á húsnæðismarkaði.
 • Heilbrigðismál: Heilbrigðis- og öldrunarþjónustunni verði tryggt nægilegt rekstarfé, opinber rekstur styrktur og dregið verði úr greiðsluþátttöku sjúklinga.
  • Þróunin síðustu ár hefur verið sú að einkarekni hluti heilbrigðisþjónustunnar hefur vaxið á kostnað þeirra opinberu eins og m.a. hefur komið fram í máli Landlæknis. Þessi breyting hefur að mestu átt sér stað án stefnumótunar á vettvangi Alþingis. Alþýðusambandið hefur lýst miklum áhyggjum af þessari þróun og telur brýnt að snúa henni við nú þegar. Í þessu frumvarpi er ekki tekið á þessum alvarlega veikleika í íslenska heilbrigðiskerfinu. Í því samhengi er mikilvægt að Alþingi komi að mótun heildstæðrar heilbrigðisstefnu og að útgjöld til heilbrigðismála taki mið af henni við næstu fjárlagagerð. Bent skal á að raunaukning útgjalda vegna heilbrigðisþjónustu í þessu frumvarpi er, líkt og undanfarin ár, hlutfallslega langmest til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna
  • Aukning á rekstrarfé til sjúkrahúsa er til bóta en ASÍ tekur undir áhyggjur Landspítala sem hefur bent á að umtalsvert meira fé vanti til reksturs, viðhalds og tækjakaupa á spítalanum en að óbreyttu mun enn þurfa að skera niður i þjónustu spítalans. Svipuð varnaðarorð hafi heyrst frá forstjórum annarra heilbrigðisstofnana.
  • Lögum samkvæmt á heilsugæslan að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga sem er bæði skilvirkt og hagkvæmt fyrir einstaklinga og ríkissjóð. Á undanförnu ári hefur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu verið fjölgað um tvær en þær stöðvar eru báðar í einkarekstri. Mikill rekstrarvandi hefur verið í opinberu heilsugæslunni á undanförum árum en stefna stjórnvalda hefur verið að styrkja hlutverk hennar og er nauðsynlegt að fjárveitingar endurspegli þá áherslu.
  • Samkvæmt núgildandi fjármálaáætlun er stefnt að byggingu á um 260 nýjum hjúkrunarrýmum til árisins 2020 sem er þó einungis um helmingur af áætlaðri þörf. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að bæta í þá áætlun og því fyrirséður áframhaldandi skortur á hjúkrunarrýmum. Gert er ráð fyrir viðbótarfé til reksturs nýrra hjúkrunarrýma á næsta ári en ekki er að sjá að bætt sé í rekstrargrunn þeirra sem fyrir eru en hjúkrunarheimilin eiga mörg í umtalsverðum rekstrarvanda og áfram er gert ráð fyrir að framlengja heimild til að nýta fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarrýma sem er andstætt hlutverki hans.
  • Ekki er að sjá í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir framlagi til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu eins og fyrirheit hafa verið gefin um. Nýtt greiðsluþátttökukerfi tók gildi þann 1. maí sl. en skv. því greiða almennir notendur að hámarki 69.700 krónur á ári fyrir heilbrigðisþjónustu sem er umtalsvert meira en það 50.000 kr. hámark sem fyrirheit voru gefin um við afgreiðslu breytinganna á Alþingi vorið 2016. ASÍ tók undir þá fyrirætlan að setja hámark á þann kostnað sem sjúklingar þurfa að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu en taldi kostnaðarþakið allt of hátt ekki síst í ljósi þess að lyf eru áfram í sérstöku greiðsluþátttökukerfi og sálfræðiþjónusta, sem er mjög dýr fyrir einstaklinga, er áfram undanskilin greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Þar að auki eru þættir eins og tannlækningar, hjálpartæki, ferðakostnaður, o.fl. sem ekki eru hluti af almenna greiðsluþátttökukerfinu. Kostnaður vegna þessara þátta bætist þannig við hámarkskostnað sjúklinga samkvæmt nýju greiðsluþátttökukerfi.
  • Gert er ráð fyrir 500 milljóna króna framlagi til uppfærslu á gjaldskrá Sjúkratrygginga vegna endurgreiðslna á tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja. Núgildandi viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga er í grunninn frá árinu 2002 en var á árinu 2014 hækkuð um 5,9%. Verðlag hefur frá árinu 2002 hækkað um ríflega 100%. Samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á árinu 2016 hjá 25 tannlæknum á Höfuðborgarsvæðinu voru gjaldskrár tannlækna í langflestum tilvikum að meðaltali 150-200% hærri en viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga. Ekki liggur fyrir hversu mikið viðmiðunargjaldskráin mun hækka við þetta framlag.
 • Almannatryggingar:
  • Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum á árinu 2018 til að fara í sambærilega kerfisbreytingu á bótakerfi örorkulífeyrisþega og gert hefur verið gagnvart ellilífeyrisþegum í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun almannatrygginga sem skilaði tillögum sínum um mitt ár 2016. Þetta er brýnt til að bæta kjör öryrkja, einfalda almannatryggingakerfið gagnvart þessum hópi með sambærilegum hætti og gert hefur verið gagnvart ellilífeyrisþegum, bæta samspilið við lífeyrissjóðina og auka áherslu á starfsgetu og endurhæfingu.
  • Bætur almannatrygginga til öryrkja hækka um 4,7% um áramót en framfærsluuppbót sem skerðist krónu á móti krónu hækkar um 16% og hámarksbætur til örorkulífeyrisþega sem búa einir hækkar þannig um um 7,1% og verða 300.000. Með þessu eru enn auknar skerðingar á tekjulægstu lífeyrisþegana og munurinn á þeim sem búa einir og með öðrum eykst enn.
  • Ellilífeyrir almannatrygginga hækkar um 4,7% um áramót en heimilisuppbót til þeirra sem búa einir hækkar um tæplega 16% og verða hámarksbætur til þeirra sem búa einir þá 300.000. Sú leið að hækka heimilisuppbót umfram almennar bætur eykur þannig enn muninn á bótum þeirra ellilífeyrisþega sem búa einir og þeirra sem eru í sambúð. Segja má að með þessu séu teknar upp tekjutengingar vegna maka að nýju í breyttu formi.
  • Þá gerir frumvarpið ráð fyrir 1,1 milljarði króna til að hækka frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna í 100.000 krónur á mánuði frá og með næstu áramótum. Þessi breyting gagnast einungis þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25.000 kr. á mánuði, en ætla má að um 14% þeirra ellilífeyrisþega sem eiga réttindi í almannatryggingum hafi atvinnutekjur. Breytingin mun skila sér betur til karla en kvenna enda eru  þeir fleiri í þessum hóp og með hærri atvinnutekjur. Breytingin bætir hins vegar ekki kjör verst settu lífeyrisþegana sem einungs hafa bætur almannatrygginga eða lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Til að bæta kjör þeirra er skilvirkara að hækka bótafjárhæðir almannatrygginga eða draga úr almennu skerðingarhlutfalli ellilífeyris sem í dag er 45%.
  • Á bls. 178 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 er í lista yfir lagabreytingar vegna gjaldahliðar fjárlaga gert ráð fyrir breytingum á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar sem feli í sér hækkun á ellilífeyrisaldri í skrefum í 70 ár næstu 24 árin. Áætlað er að fyrsti áfangi breytinganna taki gildi þann 1. janúar 2018 en frá þeim tíma hækki lífeyrisaldur um tvo mánuði. Í frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlag fyrir árið 2018 (3. mál) er hins vegar ekki að finna áform um slíkar breytingar. ASÍ varar við því að ráðist verði í hækkun lífeyrisaldurs með svo stuttum fyrirvara og án frekari umræðu.
 • Fæðingarorlof: Fæðingarorlofsgreiðslur verði hækkaðar og fæðingarorlof lengt til samræmis við niðurstöður starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum.
  • Frumvarpið gerir einungs ráð fyrir að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði úr 500.000 í 520.000 krónur á mánuði. Ekki er gert ráð fyrir fjármunum til að mæta tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í  fæðingarorlofsmálum sem lagði til að hámarksbætur hækkuðu í 600.000 krónur og tekjur upp að 300.000 skerðist ekki. Ekki er heldur gert ráð fyrir að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði líkt og starfshópurinn laði til.
  • Kaupmáttur hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er í dag um 40% lægri en á árinu 2007 og yrði hámarksgreiðslan hækkuð í 600.000 krónur yrði kaupmáttur hennar enn um 30% lægri en á árinu 2007. Þá hafa hámarksgreiðslur úr sjóðunum farið úr því að vera ríflega 120% af meðallaunum fullvinnandi launafólks niður í um 66% á árinu 2017.
 • Atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa: Bætur atvinnuleysistrygginga hækki til samræmis við lægstu laun og hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs fylgi launaþróun.
  • Frumvarpið gerir ráð fyrir að bætur atvinnuleysistrygginga hækki um 4,7% og verða fullar atvinnuleysisbætur þá 227.417 krónur á mánuði. Atvinnuleysisbætur eru nú í sögulegu lágmarki sem hlutfall af lágmarkslaunum eða um 78% en hlutfallið mun lækka í 76% þar sem lágmarkslaun og bætur almannatrygginga hækka í 300.000 krónur á árinu 2018.
  • Engin áform er að finna í frumvarpinu um hækkun á hámarksgreiðslu úr Ábyrgðasjóði launa sem hefur verið nánast óbreytt frá árinu 2009. Hámarksábyrgð úr sjóðnum nemur nú 385.000 kr. á mánuði og hefur lækkað mikið í hlutfalli við laun á undanförnum árum og er nú rétt um 50% af meðallaunum á vinnumarkaði en var um 90% á árinu 2009.

 

ASÍ lítur þá þróun sem orðið hefur á afkomutengdum réttindum launafólks í Fæðingarorlofssjóði, atvinnuleysistryggingum sem og Ábyrgðasjóði launa mjög alvarlegum augum og væntir þess að Alþingi leiðrétti þau nú þegar. Miðstjórn ASÍ ályktaði um málið þann 23. ágúst sl. og segir þar m.a.:  „…Alþýðusambandið hefur verið þeirrar skoðunar að aðlaga beri tryggingagjaldið að fjárhagsstöðu vinnumarkaðstengdu sjóðanna, þ.e. atvinnuleysistryggingasjóðs, fæðingarorlofssjóðs og ábyrgðasjóðs launa, að því gefnu að áður en til breytinga á iðgjaldi atvinnulífsins kemur verði að treysta réttindi sjóðsfélaganna.“

 

 • Sjóðir vinnumarkaðarins verði markaðir tekjustofnar: Líkt og aðilar vinnumarkaðarins bentu á við breytingu á lögum um opinber fjármál á árinu 2015 er nauðsynlegt að gera breytingu í þá veru að færa sjóði vinnumarkaðarins sem standa undir fjármögnun tiltekinna réttinda úr A-hluta ríkissjóðs yfir í C-hluta. Þessir sjóðir eru hluti af þríhliða samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins fjármagnaðir með framlögum sem eru ígildi iðgjalda t.d. atvinnutryggingagjaldi, gjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða, fæðingarorlofsgjaldi, ábyrgðargjaldi vegna tryggingar krafna vegna gjaldþrota vinnuveitenda, gjaldi til starfsendurhæfingarsjóða, markaðsgjaldi og iðgjaldi vegna slysatryggingar sjómanna. Með slíkri breytingu er tryggt að framlög til þessara sjóða renni ekki beint í ríkissjóð heldur séu markaðir tekjustofnar sem fjármagni tiltekin réttindi. Góð staða sjóða vinnumarkaðarins á næsta ári leiðir til þess umtalsverðir fjármunir munu renna úr þeim til að bæta stöðu ríkissjóðs í stað þess að verða eftir í sjóðunum og búa í haginn þegar vel árar. 

 

 • Framhaldsfræðsla: Framlög hækki til framhaldsfræðslu og Fagháskóli verði tryggður.
  • Í frumvarpinu er kveðið á um hækkun framlaga til framhaldsskóla- og háskólastigsins. ASÍ lýsir yfir mikilli óánægju með að á sama tíma séu framlög til vinnustaðanámssjóðs og framhaldsfræðslu sem þjóna þeim hópum sem hafa hvað minnsta menntun á vinnumarkaði lækkuð að raungildi. Þá er ekki gert ráð fyrir neinum frekari fjármunum vegna þróunar fagháskólanáms sem verið hefur í vinnslu undanfarin ár og undrun vekur að verkefnið er fært í hendur háskólanna en ekkert minnst á hlutverk Samráðshóps um fagháskólanám.

 

Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ

 

 

 

[1] Peningamál 2017/4

[2] Frumvarp til fjárlaga 2018, bls. 103