Stefna ASÍ

Frumvarp til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak og fleiri lögum

Reykjavík 17.3.2017
Tilvísun: 201703-0009


Efni: Frumvarp til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak og fleiri lögum, mál nr. 106

Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi ríkisins á áfengissölu verði afnumið og smásala verði gefin frjáls að miklu leyti. Frumvarpið vinnur gegn stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum. Markmið stefnunnar er að „draga úr andlegum, félagslegum og líkamlegum skaða og kostnaði einstaklinga, fjölskyldna, fyrirtækja og samfélagsins alls vegna neyslu vímugjafa“. Stefnan var samþykkt í desember 2013 og til stóð að byggja sérstaka aðgerðaáætlun á henni í kjölfarið. ASÍ vill nota tækifærið sem nú gefst til að brýna stjórnvöld til að semja slíka áætlun sem fyrst til að hægt verði að framfylgja stefnunni með markvissari hætti. Stefnan byggir á tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2010.

Rannsóknir sýna að heft aðgengi og verðlagning áfengis eru einna áhrifaríkustu forvarnir gegn áfengisneyslu sem völ er á og á heimasíðu Landlæknis má finna ágætt yfirlit yfir slíkar rannsóknir og niðurstöður þeirra í stuttu máli. http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item24904/Rannsóknarskýrslur%20um%20áfengismál_samantekt.pdf

Í greinagerð með fyrirliggjandi frumvarpi segir á bls. 13: „Breytingin á verslun með áfengi og tóbak sem hér er lögð til felur aðeins í sér að aðrir en hið opinbera annist smásölu áfengis sem og rýmkun á heimildum til auglýsinga. Þannig felur frumvarpið ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu … .“ Þessari fullyrðingu mótmælir ASÍ enda er eitt af meginmarkmiðum áfengisvarnarstefnunnar að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum og tekið er fram að ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa sé að takmarka aðgengi m.a. með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis. Með þessu frumvarpi er verið að auka aðgengi að áfengi með fjölgun smásölustaða og auknum opnunartíma.

Þetta frumvarp gengur auk þess lengra en fyrri frumvörp sama efnis og leggur til að auglýsingar á áfengi verði leyfðar. Nokkrar aðrar breytingar hafa að auki verið gerðar á frumvarpinu frá 145. löggjafarþingi. Þær eru helstar að sala áfengis í smásölu verði heimil til kl. 24.00 í stað 20.00, fellt er út ákvæði um að sala geti aðeins farið fram ef kaupandinn sýnir með skilríkjum að hann sé orðinn 20 ára og ákvæði um að ekki megi selja áfengi undir kostnaðarverði er einnig fellt út þó svo að í greinagerð með frumvarpinu sé enn talað um að það sé óheimilt. Reyndar kann þarna að vera um mistök að ræða við samningu frumvarpsins því svo virðist sem 10. gr. áfengislaga haldist óbreytt en þar er kveðið á um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi einkaleyfi til smásölu áfengis.

Þá er það einnig nýtt í þessu frumvarpi að lagt er til að sveitarstjórnum verði heimilt að veita undanþágu frá afmörkun áfengis frá annarri söluvöru. Auk þess er mögulegum útsölustöðum fjölgað en í fyrra frumvarpi var sveitarstjórn óheimilt að veita smásöluleyfi til fyrirtækja sem falla undir ÍSAT-flokkinn 47.11.2 (söluturnar) og myndbanda- og mynddiskaleigna, sbr. ÍSAT-flokk 77.22.0. Þessi takmörkun er felld brott nú. Þá er fellt út bráðabirgðaákvæði um að endurskoða beri lögin innan árs frá gildistöku þeirra.

Alþýðusamband Íslands leggst gegn því að frumvarpið verði að lögum. Framvarpið er í andstöðu við áfengis- og vímuvarnarstefnu stjórnvalda og þá almennu sátt sem ríkt hefur um sölufyrirkomulag áfengis hér á landi. Verði frumvarpið að lögum mun áfengisneysla aukast og skaði og kostnaður sem af henni hlýst verða meiri.


Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ