Stefna ASÍ

Frumvarp til breytinga á lögum 19/1979 um uppsagnarfrest o.fl.

Reykjavík 20.2 2008.
ASÍ mál: 200801-0031


Efni: Umsögn um frumvarp til breytinga á l. 19/1979 um uppsagnarfrest
o.fl. 164 mál.

Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði var samið um nýja framkvæmd
uppsagna, rétt starfsmanna til skýringa og rökstuðnings ef við á. Ákvæðin eru
svohljóðandi:


Uppsögn ráðningarsamninga

Kafli kjarasamninga um „Framkvæmd uppsagna“ breytist og hljóði svo:

Almennt um uppsögn
Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur. Allar uppsagnir skulu vera skriflegar og gerðar
á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns.

Viðtal um ástæður uppsagnar
Starfsmaður á rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar. Beiðni um
viðtal skal koma fram innan fjögurra sólarhringa frá því uppsögn er móttekin og
skal viðtal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá.

Starfsmaður getur óskað þess þegar að loknu viðtali eða innan fjögurra
sólarhringa að ástæður uppsagnar séu skýrðar skriflega. Fallist atvinnurekandi á
þá ósk hans, skal við því orðið innan fjögurra sólarhringa þar frá.

Fallist atvinnurekandi ekki á ósk starfsmanns um skriflegar skýringar, á
starfsmaður innan fjögurra sólarhringa rétt á öðrum fundi með vinnuveitanda um
ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa
stéttarfélags síns ef starfsmaður óskar þess.

Takmörkun uppsagnarheimildar skv. lögum
Við uppsagnir skal gæta ákvæða laga sem takmarka frjálsan uppsagnarrétt
vinnuveitanda, m.a. ákvæða um trúnaðarmenn og öryggistrúnaðarmenn,
barnshafandi konur og foreldra í fæðingarorlofi, starfsmenn sem til tilkynnt hafa
um fæðingar- og foreldraorlof og starfsmenn sem bera fjölskylduábyrgð.

Einnig verður að gæta ákvæða 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og
vinnudeilur, laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, laga um
starfsmenn í hlutastarfi, laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að
fyrirtækjum og samráðsskyldu laga um hópuppsagnir.

Þegar starfsmaður nýtur uppsagnarverndar skv. lögum, ber vinnuveitanda að
rökstyðja skriflega hvaða ástæður liggja að baki uppsögn.
Viðurlög
Brot gegn ákvæðum þessa kafla geta varðað bótum skv. almennum reglum
skaðabótaréttarins.


Bókun með samkomulagi um uppsögn ráðningarsamninga
Með samkomulagi ASÍ og SA dags. 17. febrúar 2008 hefur náðst sátt milli aðila
um fyrirkomulag uppsagna á vinnumarkaði. Starfsmaður á samkvæmt því rétt á
viðtali við vinnuveitanda sinn um ástæður uppsagnar, óski hann þess. Áréttað er
að frjáls uppsagnarréttur vinnuveitanda er háður vissum takmörkunum, lögum
samkvæmt. Aðilar eru einnig sammála um að stuðla að góðri framkvæmd
uppsagna á vinnumarkaði og munu í því skyni vinna sameiginlega að gerð
fræðsluefnis sem lokið skal við fyrir árslok 2008.F.h. Alþýðusambands Íslands,_____________________
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ