Stefna ASÍ

Frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum o.fl. (misnotkun á félagaformi, hæfisskilyrði)

Reykjavík 29. apríl 2019

Efni: Frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum o.fl. (misnotkun á félagaformi, hæfisskilyrði), 796. mál

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands („samtökin“) skiluðu sameiginlegri umsögn um drög að frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum o.fl. (misnotkun á félagaformi, hæfisskilyrði).
Samtökin styðja í öllum meginatriðum frumvarpið með þeim fyrirvörum sem er að finna í sameiginlegri umsögn þeirra 28. mars sl. og er að finna hér í viðhengi. Með því er stigið skref í þá átt að uppræta kennitöluflakk. Nauðsynlegt er að stíga mun stærri skref, m.a. með því að innleiða hér á landi heimild til að geta svipt vanhæfa einstaklinga tímabundið heimild sinni til að reka félag með takmarkaðri ábyrgð (atvinnurekstrarbann) að norrænni fyrirmynd sem er ekki bundin við refsimál og hægt er að ná fram með skjótvirkum hætti. Ekki er eftir neinu að bíða og mikilvægt að frumvarp þess efnis verði lagt fram í upphafi næsta löggjafarþings og að náið samráð verði haft við samtökin enda miklir hagsmunir í húfi.

Virðingarfyllst,
F.h. Samtaka atvinnulífsins, Guðmundur H. Guðmundsson
F.h. Alþýðusambands Íslands, Halldór Grönvold

VIÐHENGI

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Skúlagötu 4
101 Reykjavík


Reykjavík, 28. mars 2019

Efni: Drög að frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum o.fl. (misnotkun á félagaformi, hæfisskilyrði)

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands („samtökin“) skila sameiginlegri umsögn um drög að frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum o.fl. (misnotkun á félagaformi, hæfisskilyrði).
Samtökin hafa unnið náið saman að tillögugerð um hvernig megi sporna gegn kennitöluflakki, enda líta samtökin á það sem sameiginlegt verkefni að treysta í sessi heilbrigðan vinnumarkað og jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Samtökin kunngerðu tillögur sínar, Stöðvum kennitöluflakk 20. júní 2017 á sérstökum fréttamannafundi auk þess að kynna þær sérstaklega fyrir fjármálaráðherra og ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar ásamt þeirra aðstoðarmönnum og helstu sérfræðingum í ráðuneytum.
Með kennitöluflakki er átt við að viðkomandi félag hættir starfsemi en rekstur þess heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu enda sé markmiðið með gjaldþrotinu að komast undan einhverjum eða öllum lagalegum skuldbindingum félagsins.
Við skoðun á kennitöluflakki telja samtökin mikilvægt að gera greinarmuna á kennitöluflakki og hefðbundnum gjaldþrotaskiptum, sbr. flokkun samtakanna á þremur tegundum gjaldþrotaskipta er kemur fram í tillögum samtakanna frá 20. júní 2017.
Að mati samtakanna er mikilvægast að koma í veg fyrir að vanhæfir einstaklingar geti haldið áfram að valda kröfuhöfum tjóni með kennitöluflakki og annarri misnotkun á félagaforminu.

Nauðsynlegt er því að innleiða hér á landi heimild til að geta svipt vanhæfa einstaklinga tímabundið heimild sinni til að reka félag með takmarkaðri ábyrgð (atvinnurekstrarbann) sem er ekki bundin við refsimál og hægt er að ná fram með skjótvirkum hætti.
Samtökin lögðu fram eftirfarandi tillögur:

1) Atvinnurekstrarbannsheimild
2) Lífeyrissjóðsiðgjöld verði betur vernduð
3) Nefnd skipuð um hvernig megi styrkja stöðu kröfuhafa
4) Heimild ráðherra til að slíta félögum skv. 107. gr. hlutafélagalaga færð yfir til ríkisskattstjóra
5) Ríkisskattstjóri fái upplýsingar um refsidóma í tengslum við atvinnurekstur
6) Opinberir aðilar marki sér heildstæða stefnu um aðkomu að þrotabúum félaga
7) Hæfisskilyrði hlutafélagalaga nái til skuggastjórnanda
8) Fræðsla
9) Bætt gæði skiptastjóra

Samtökin árétta mikilvægi þess að taka á misnotkun á félagaforminu með ábyrgum hætti og fagna því að stigið sé skref í þá átt með frumvarpi þessu. Þá virða samtökin það samráð sem hefur verið með fulltrúum ráðuneytisins og vænta þess að framhald verði á því.
Samtökin vilja koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við einstök atriði frumvarpsins:

Lífeyrissjóðsiðgjöld betur vernduð
Í a. og b. lið frumvarpsins er lagt til að 262. gr. almennra hegningarlaga nái jafnframt til meiriháttar brota á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þ.e. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997. Samtökin fagna því að lagt sé til að tillaga þeirra verði lögfest orðrétt skv. efni sínu. Samtökin telja afar brýnt að veita lífeyrissjóðsiðgjöldum sambærilega réttarvernd og vörslusköttum en í dag hefur það engar sérstakar lagalegar afleiðingar fyrir stjórnendur að skilja eftir lífeyrissjóðsiðgjöld í eignalausu þrotabúi ólíkt vörslusköttum þótt atvinnurekandi sé vörsluaðili í báðum tilvikum.
Samtökin vilja að sama skapi ítreka tillögu sína um að samlestur staðgreiðsluskrár við iðgjaldaskrá lífeyrissjóða verði aukinn.

Tímabundin réttindasvipting (atvinnurekstrarbann)
Í d. lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að unnt verði með dómi í sakamáli að banna þeim einstaklingum sem hafa gerst brotlegir gegn 262. gr. almennra hegningarlaga að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, að sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri hlutafélaga eða koma með öðrum hætti að stjórnun slíks félags eða fara með meirihluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár.
Aðaltillaga samtakanna er að lögfest verði hér á landi samsvarandi heimild og í nágrannalöndum okkar til að geta sett einstaklinga sem teljast vanhæfir í tímabundið bann frá þátttöku í stjórnun hlutafélaga á grundvelli ríkra almannahagsmuna (atvinnurekstrarbann).
Ein megináststæða þess að ekki hafi náðst viðunandi árangur í að sporna gegn kennitöluflakki og annarri misnotkun á hlutafélagaforminu er að mati samtakanna vandkvæði við að færa sönnur á að einstaklingur hafi sýnt af sér refsiverða háttsemi í störfum sínum sem stjórnandi félags. Þá getur langur tími liðið frá því að brot er framið þar til dómur fellur í sakamáli. Afleiðingin er sú að í framkvæmd stendur almenningur, svo sem ríkissjóður, lífeyrissjóðir, starfsmenn og fyrirtæki nær berskjaldaðir gegn kennitöluflökkurum og öðrum þeim sem misnota hlutafélagaformið. Staðan hér á landi er því um margt lík og hún var í Danmörku áður en lög um atvinnurekstrarbann tóku þar gildi 1. janúar 2014.
Hæfisskilyrði 1. mgr. 64. gr. hlutafélagalaga og 1. mgr. 42. gr. einkahlutafélagalaga um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar megi ekki á síðustu þremur árum í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld hefur því engan vegin reynst fullnægjandi.
D-liður 1. gr. frumvarpsins felur ekki í sér útvíkkun á þeim refsilagabrotum sem geta verið grundvöllur vanhæfis stjórnarmanna enda leiða brot á almennum hegningarlögum í tengslum við atvinnurekstur til sjálfkrafa vanhæfis stjórnarmanna samkvæmt gildandi lögum. Að mati samtakanna er eina breytingin fólgin í því að ákvæðið er ekki lengur bundið við skráða stjórnendur. Þá vantar í frumvarpið hvaða viðmið eigi að liggja til grundvallar atvinnurekstrarbanninu. Nærtækara væri að fara þá leið sem samtökin leggja til og útvíkka hæfisreglur hlutafélagalaga þannig að þær nái jafnframt til skuggastjórnenda.
Mikilvægast er að innleiða hér á landi heimild til að geta svipt vanhæfa einstaklinga tímabundið heimild sinni til að reka félag með takmarkaðri ábyrgð (atvinnurekstrarbann) að norrænni fyrirmynd sem er ekki bundin við refsimál og hægt er að ná fram með skjótvirkum hætti. Samtökin fagna því að í frumvarpinu sé boðað að slíkt frumvarp verði lagt fram á næsta löggjafarþingi. Þá vilja samtökin árétta mikilvægi þess að haft verði samráð við þau við gerð frumvarpsins.

Hæfisskilyrði hlutafélagalaga
Samtökin eru hlynnt því að útvíkka gildissvið hæfisskilyrða hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga til samvinnufélaga og sjálfseignastofnana sem stunda atvinnurekstur enda ábyrgðin þar takmörkuð og því sama hætta á misnotkun á félagaforminu og í tilviki hlutafélaga.
Að sama skapi styðja samtökin útvíkkun á hæfisskilyrðum hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða enda rökrétt að refsibrot á þeim lögum hafi sömu afleiðingar og brot er varða í dag vanhæfi skv. 1. mgr. 64. gr. hlutafélagalaga og 1. mgr. 42. gr. einkahlutafélagalaga.

Hæfisskilyrði prókúruhafa
Samtökin eru hlynnt 3. og 6. gr. frumvarpsins um hæfisskilyrði prókúruhafa. Prókúruhafar bera mikla ábyrgð og eðlilegt er að mati samtakanna að gera þær kröfur til prókúruhafa að þeir séu lögráða, fjár síns ráðandi og hafi ekki gerst sekir um brot gegn þeim lagaákvæðum.
Ríkisskattstjóri fái upplýsingar um refsidóma í tengslum við atvinnurekstur
Ánægjulegt er að í frumvarpinu komi fram að verið sé að bregðast við tillögu samtakanna um að ríkisskattstjóri fái upplýsingar um refsidóma í tengslum við atvinnurekstur en í dag getur það komið fyrir að einstaklingur sem er vanhæfur skv. hlutafélagalögum skrái sig sem stjórnandi hlutafélags.

Slit á félögum
Að lokum fagna samtökin því að orðið sé við tillögu þeirra um að heimild ráðherra til að slíta félögum skv. 1. mgr. 107. gr. hlutafélagalaga og 1. mgr. 82. gr. einkahlutafélagalaga verði færð yfir til hlutafélagaskrár ríkisskattstjóra.

Frekari úrbóta er þörf!
Auk framangreinds ítreka samtökin aðrar tillögur sínar frá 20. júní 2017. Samtökin telja þannig afar brýnt að:
• Atvinnurekstrarbann
Lögfest verði heimild til að geta svipt einstaklinga sem hafa gerst sekir um grófa eða óverjandi viðskiptahætti tímabundið rétti sínum til að reka hlutafélag.
• Bætt gæði skiptastjórnar
Gerðar verði auknar kröfur til skiptastjóra t.d. með því að setja það sem hæfisskilyrði að skiptastjóri hafi sótt námskeiðið skiptastjórn þrotabúa hjá Lögmannafélagi Íslands.
• Stefna opinberra aðila sem kröfuhafar þrotabúa
Opinberir aðilar marki sér heildstæða stefnu um aðkomu sína að þrotabúum félaga og gangi á undan með góðu fordæmi og taki virkan þátt í riftunarmálum.
• Staða kröfuhafa verði styrkt í riftunarmálum.
• Fræðsla
Stjórnvöld taki saman höndum með samtökunum og vinni sameiginlega að uppbyggilegri fræðslu.
Samtökin árétta ósk sína um að samráð verði haft við þau um þá nauðsynlegu vinnu sem framundan er til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Jafnframt leggja þau áherslu á að þeirri vinnu verði flýtt eins og kostur er, enda miklir hagsmunir í húfi.

Virðingarfyllst,
F.h. Samtaka atvinnulífsins, Guðmundur H. Guðmundsson
F.h. Alþýðusambands Íslands, Halldór Grönvold