Stefna ASÍ

Frumvarp til almennra hegningarlaga (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu)

Reykjavík 4.3 2019
Mál: 201902-0029

Efni: Frumvarp til almennra hegningarlaga (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu), 543. mál

Alþýðusamband Íslands tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands sem gefin var dómsmálaráðherra í samráðsferli málsins og sem liggur nú frammi sem umsögn um þetta mál.

ASÍ telur enga lagalega eða félagslega knýjandi þörf liggja að baki þeirri þrengingu sem lögð er til . Í ljósi þess hvernig umræða um útlendinga, flóttamenn og minnihlutahópa hefur þróast á vesturlöndum á undanförnum árum, þar sem ýtt er undir andúð og fordóma þó ekki sé samkvæmt orðanna hljóðan tilgangurinn að kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun, telur ASÍ að þvert á móti sé full ástæða til þess að breyta í engu gildandi ákvæðum 233.gr. hegningarlaga. Hæstiréttur hefur og túlkað þetta ákvæði til samræmis við þær skuldbindingar sem Ísland er bundið af á alþjóðavettvangi og er vel treystandi til þess að finna það jafnvægi sem ríkja þarf milli leyfilegra ummæla og þeirra sem kunn að varða refsingu.

Sífelld og vaxand niðrandi umræða og smánun á grundvelli vegna uppruna, trúar, kynhneigðar eða réttarstöðu, ef látin er átölulaus, getur auðveldlega þróast með þeim hætti að samanlögð áhrif hennar megi líta á þannig að kynnt sé undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl,
lögfræðingur ASÍ