Stefna ASÍ

Frumvarp laga um Stjórnarráð Íslands (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.)

Reykjavík: 12.2.2015
Tilvísun: 201502-0016

Efni: Frumvarp laga um Stjórnarráð Íslands (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.), 434. mál

Varðandi 1.gr. frumvarpsins vill ASÍ taka fram, að sambandið styður eindregið að aðsetur stórra og mikilvægra stofnana ríkisins sé ákveðið í lögum. ASÍ hefur fyrr á þessu þingi lagst gegn breytingum á lögum um almannatryggingar þar sem lagt er til að fella aðsetur Tryggingastofnunar úr lögum. Í umsögn ASÍ um það mál segir:

„ASÍ telur að sú víðtæka heimild sem opnuð er í c.(10. gr.) lið 1.greinar frumvarpsins sé of víðtæk. Samkvæmt henni getur ráðherra, að fenginni umsögn forstjóra, ákveðið staðsetningu stofnunarinnar. Tryggingastofnun er ein af mikilvægustu stofnunum ríkisins þegar kemur að samskiptum við borgarana. Á það sérstaklega við um þá hópa sem undir högg eiga að sækja vegna áfalla og aldurs. Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar er hún helsta „miðstöð velferðarmála á Íslandi“ þar sem starfa „rúmlega 100 manns við að leysa flókin verkefni og veita stórum hópi landsmanna þjónustu.“ Það er álit ASÍ að vel þurfi að vanda til ákvarðanatöku um aðsetur Tryggingastofnunar hverju sinni og að óásættanlegt sé að það vald sé falið einum ráðherra án samráðs og án samþykkis Alþingis.“

Í b.lið 10.gr. frumvarpsins er lagt til að heimildir til flutnings innan stjórnsýslunnar verði rýmkaðar. Það er mat ASÍ að tillögurnar stuðli að auknu ógagnsæi í ákvarðanatökum hins opinbera. Gagnsæi er mikilvægt aðhald og almenningur á að geta fylgst með hvernig stöðuveitingum og ráðningum er háttað. Þegar ráðið er í stöður innan opinberra stofnana ber að gera það eftir skýrum og hlutlausum viðmiðum og það á að vera hægt að fylgjast með því að eftir þeim sé farið. Eitt helsta tæki til að auka jöfnuð og jafnrétti er að hugsa ekki ákveðna einstaklinga inn í ákveðin störf heldur að vera með sem hlutlægust viðmið og gefa öllum tækifæri til að sækjast eftir þeim störfum sem þarf að manna og tryggja að til dæmis lög um jafnrétti séu virt í slíku ferli. Það verður ekki gert án þess að stöður séu auglýstar. Persónulegar skoðanir ráðamanna á fólki og persónulegt mat á hæfni þeirra til að gegna ákveðnum störfum setur samfélagið í gildru staðalímynda um hvernig persóna í ákveðið starf „á að vera“. Það er hins vegar ekki alltaf besta eða hæfasta manneskjan í starfið. Nái tillögurnar fram þá telur ASÍ ennfremur, að skjaldborg sú sem reist hefur verið um þann hóp fólks sem þegar hefur fengið störf hjá hinu opinbera styrkist um of og stuðli enn frekar en nú er að því skipta hæfum einstaklingum í tvo hópa þ.e. þá sem komnir eru inn fyrir skjaldborgina og þá sem utan standa. Loks teljum við að breytingin geti leitt til aukinnar spillingar og frændhygli í stjórnsýslu íslenska ríkisins. Alþýðusamband Íslands leggst því eindregið gegn þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði með b. lið 10.gr. frumvarpsins.

Virðingarfyllst,
Magnús M. Norðdahl hrl.,
lögfræðingur ASÍ