Stefna ASÍ

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof

Reykjavík, 6. apríl 2016


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 með síðari breytingum, 261. mál.

Lög um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000 með síðari breytingum, hafa annars vega að markmiðið að tryggja barni samvistir við báða foreldra og hins vegar að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Starfshópur um mótun tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði í síðasta mánuði tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra og í þeirri vinnu voru ofangreind markmið höfð að leiðarljósi. Alþýðusamband Íslands átti fulltrúa í starfshópnum og er hér með vísað til skýrslunnar og þeirra megin tillagna sem þar koma fram. ASÍ bendir sérstaklega á meðfylgjandi afstöðu sambandsins sem fylgdi með tillögunum.

„ASÍ telur að þær tillögur sem fram koma í skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum styrki markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000, þar sem annars vegar er kveðið á um að tyggja barni samvistir við báða foreldra og hins vegar að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Þó ASÍ hefði viljað hraða þessum breytingum styður sambandið þá málamiðlun sem tillögur starfshópsins endurspegla og sem fram koma í skýrslunni. Á þetta bæði við um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og skiptingu fæðingarorlofsins milli foreldra.
Í skýrslunni er lagt til að lenging fæðingarorlofsréttar hefjist 1. janúar 2019 og verði komin til fullra framkvæmda 1. janúar 2021. Þó ASÍ hefði viljað sjá lengingu fæðingarorlofsréttar koma mun fyrr til framkvæmda, styður það tillöguna á þeim forsendum að hún feli í sér raunhæfa aðlögun í framkvæmd.
Samkvæmt útreikningum ASÍ eiga tillögur starfshópsins, eins og þær eru lagðar fram í skýrslunni, að rúmast innan þess tryggingargjalds sem Fæðingarorlofssjóður fékk á árunum 2012-2013, þ.e. 1,28% af tryggingagjaldinu, en gjaldið var lækkað um næstum helming árið 2014.
ASÍ telur mikilvægt að árétta þá afstöðu sína, að sambandið er alfarið á móti því að lækkun almenns tryggingargjalds komi niður á hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs af tryggingargjaldinu. Endurreisn fæðingarorlofskerfisins og frekari framþróun þess verður hér að hafa forgang.“


F.h. Alþýðusambands Íslands
Maríanna Traustadóttir,
sérfræðingur hjá ASÍ