Stefna ASÍ

Breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar)

Reykjavík 13.3.2018
Tilvísun: 201802-0042

Efni: Breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar), 38. mál

ASÍ tekur undir mikilvægi þess að gera breytingar á ákvæðum laga almannatryggingar er varða réttindi örorkulífeyrisþega svo bæta megi kjör þess hóps og draga úr óvissu til framtíðar.

Í því samhengi leggur ASÍ áherslu á að slík breyting verði gerð með í heildarendurskoðun á ákvæðum almannatryggingalaga varðandi örorkulífeyrisþega í samræmi við niðurstöður nefndar um endurskoðun almannatrygginga frá árinu 2016. Ný nálgun í mati á starfsgetu og heildarendurskoðun á bótakerfi almannatrygginga gagnvart öryrkjum er löngu tímabær og þarf að ráðast í nú þegar.

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur nýverið óskað eftir tilnefningum í nýjan starfshóp um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu sem ætlað er að gera tillögur að nýju greiðslukerfi sem styðji við þegar fram komnar tillögur um mótun og innleiðingu starfsgetumats. ASÍ hefur skipað sameiginlegan fulltrúa í hópinn ásamt BSRB, BHM og KÍ en í honum eiga sæti auk fulltrúa frá ÖBÍ og Þroskahjálp, fulltrúar þingflokka á Alþingi og einn sameiginlegur fulltrúi samtaka atvinnurekenda. ASÍ væntir þess að starf hópsins muni leiða til þess að unnt verði að gera nauðsynlegar breytingar hvað þessa þætti varðar sem allra fyrst.


Virðingarfyllst,
Henný Hinz
hagfræðingur ASÍ