Stefna ASÍ

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda o.fl.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1987, 113/1990 og 129/1997 (131 )

Mál þetta er flutt til þess að tryggja innheimtu skatta af starfsmönnum starfsmannaleiga sem ekki eiga skattalegt heimilisfesti hér á landi en sem leigja starfsmenn hingað til lands.

ASÍ mælir eindregið með samþykkt þessa frumvarps. Það byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum sem verkalýðshreyfingin hefur ítrekað kynnt Alþingi. Þau eru, að sá sem í raun sé vinnuveitandi starfsmanna, notendafyrirtækið, beri hefðbundna launagreiðendaábyrgð ábyrgð á því, að öllu er varðar laun, launatengd gjöld og skatta og skyldur sé rétt til laga haldið. Mikill misbrestur hefur á þessu verið og brýnt að Alþingi geri nauðsynlegar breytingar hér á. Frumvarp þetta, sem mælir fyrir um notendaábyrgð þegar í hlut eiga fjárhagslegar efndir gagnvart stjórnvöldum, er eitt skref af mörgum sem taka þarf til þess að tryggja það að notendafyrirtæki hér á landi verði gerð ábyrgð á fjárhagslegum efndum, ekki bara gagnvart hinu opinbera heldur einnig og ekki síður gagnvart starfsmönnunum sjálfum.


F.h. Alþýðusambands Íslands,

_____________________
Magnús M. Norðdahl hrl., 
lögfræðingur ASÍ