Stefna ASÍ

Skattamál

ASÍ telur að endurmeta verði og skýra þau samfélagslegu markmið sem liggja að baki allri skattlagningu hins opinbera og þeirri þjónustu sem það veitir. Fjármagna á velferðarkerfið með skattheimtu sem byggir á þeirri hugsun að menn greiði eftir efnum en fái grunnþjónustu eftir þörfum. Ljóst er að öll starfsemi hins opinbera hefur töluverð áhrif á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, hvort sem litið er til skattheimtu, tekjutilfærslna eða þeirrar þjónustu sem veitt er.

Í endurteknum niðurskurði á undanförnum árum hafa menn misst sjónar á þeirri grundvallarhugsun sem velferðarkerfið byggir á. Vanhugsaðar breytingar á velferðarkerfinu hafa leitt til þess að samfélagið tryggir alþýðu manna ekki lengur öflugt félagslegt öryggisnet. ASÍ telur að þessi þróun muni óhjákvæmilega leiða til aukinnar sérhyggju og vaxandi ójafnaðar. ASÍ vill þess í stað móta stefnu sem byggir á jöfnuði og samstöðu.

Nauðsynlegt er að fjalla um breytingar á skattheimtu hins opinbera í beinu samhengi við þá þjónustu sem það veitir. Allt frá því að staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp árið 1988 hefur þróunin einkennst af stöðugt vaxandi tekjutengingu ýmissa bóta og aukinni gjaldtöku fyrir þjónustu. Þannig eru barnabætur, vaxtabætur og lífeyrisbætur tekjutengdar með þeim hætti að hópar sem þeirra njóta búa við mjög háa jaðarskatta. Því er mikilvægt að ASÍ hefji nú þegar vinnu við að móta stefnu í velferðar- og skattamálum sem byggi m.a. á eftirfarandi atriðum:

 

Helstu verkefni og áherslur ASÍ:

·Jaðarskattar, dregið verði úr tekjutengingu í skattakerfinu.

·Skilgreina verður þá grunnþjónustu velferðarkerfisins, sem greiða skal með skatttekjum.

·Marka þarf stefnu um gjaldtöku fyrir aðra þjónustu velferðarkerfisins. Dæmi eru um að bág efnaleg afkoma heimila hindri fólk í að geta sótt sér nauðsynlega þjónustu. Aukin gjaldtaka í menntakerfinu er þegar farin að hafa þau áhrif að efnaleg staða foreldra ræður því hvort unglingar geti aflað sér menntunar.

·Að skattbyrðin taki í ríkari mæli tillit til framfærslubyrði en nú er.

·ASÍ telur að skoða eigi að taka upp fjölþrepa tekjuskattskerfi sem byggi á staðgreiðslu, með hóflegum persónuafslætti. Einungis þannig verður hægt að ná niður jaðarsköttum en jafnframt tryggja réttlátari skattlagningu þar sem tekið er tillit til nýtingar persónuafsláttar fjölskyldunnar í heild.

·Eðlilegt er að skattleggja fjármagnstekjur á sama hátt og launatekjur.

·Tryggja verður að skattkerfið stuðli ekki að svartri atvinnustarfsemi, t.d. með flóknum og torskiljanlegum reglum. Jafnframt þarf að tryggja öflugt eftirlit með skattskilum.

·Verkalýðshreyfingin hefur við gerð kjarasamninga tekið þátt í því að lækka skattlagningu á matvælum. ASÍ telur mikilvægt að virðisaukaskattkerfið byggi áfram á tveimur skatthlutföllum þar sem matvæli verði í lægra þrepi.

·Velferðarstefnan verður að grundvallast á tekjujöfnun, félagslegu öryggi, réttlæti og samstöðu í stað stéttarmunar. Stefnan verður að byggjast á jafnrétti í mennta- og heilbrigðismálum.

·Óviðunandi er að þeir sem ekki sinna þeirri lagalegu skyldu að greiða í lífeyrissjóði, njóti rýmri kjara í almannatryggingarkerfinu.

·Aukin notkun heimildarákvæða í lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð, þar sem fólk getur sótt um uppbætur vegna aðstæðna sinna, hefur breytt ásjónu velferðarkerfisins frá almennu öryggisneti yfir í ölmusuþjónustu. Í slíku kerfi er réttarstaða almennings óljós og hætta er á viðvarandi deilum um reglurnar.

·ASÍ krefst þess að heilbrigðisyfirvöld láti gera allsherjar úttekt á heilbrigðisþjónustu í landinu sem leiði til heilsteyptrar stefnu í heilbrigðismálum til lengri tíma. Endurskoða þarf vægi og hlutverk grunnþjónustu heilsugæslu- og heimilislækna annars vegar og hlutverk sérfræðilækna hins vegar. Einnig er eðlilegt að endurskoða sérfræðiþjónustu á heilbrigðisstofnunum og einkastofum lækna með það að markmiði að þessi þjónusta verði skilvirkari og ódýrari.

·Á undanförnum árum hefur greiðsluþátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði verið stóraukin. ASÍ telur að gengið hafi verið of langt í þessu efni með þeim afleiðingum að lyfjakostnaður er farinn að sliga fjárhag heimilanna, sérstaklega þeirra tekjulægstu.

·Veruleg breyting hefur verið gerð á verkaskiptingu sjúkrahúsa á landsbyggðinni og sjúklingum vísað annað til meðferðar. Á sama tíma hefur verið dregið verulega úr þátttöku almannatrygginga í ferðakostnaði og því standa ekki allir jafnir frammi fyrir þessum veigamikla þætti velferðarkerfisins.

·Brýnt er að framkvæmdasjóður aldraðra fái það fjármagn sem honum er ætlað til þeirra verkefna sem lögin kveða á um.

·Nauðsynlegt er að tryggja stöðu fatlaðra við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga.

·Velferðar- og skattahópurinn beinir þeim tilmælum til miðstjórnar að skipuð verði fastanefnd um velferðarmál innan ASÍ