Stefna ASÍ

Stefnumótun ASÍ í lífeyrismálum

Miðstjórn ASÍ samþykkti þann 20. febrúar 2013 nýja stefnu ASÍ í lífeyrismálum og málefnum lífeyrissjóðanna. Heildarendurskoðun á stefnu sambandsins hefur staðið yfir síðan síðan snemma árs 2010 þegar efnt var til víðtækrar umræðu og samráðs meðal aðildarsamtaka sambandsins sem tóku vikan þátt í stefnumótunarvinnunni. Niðurstöður þessarar samræðu eru áherslur hreyfingarinnar í lífeyrismálum til komandi ára, bæði hvað varðar uppbyggingu lífeyriskerfisins í heild sem og helstu samningsmarkmið í viðræðum við samtök atvinnurekenda og stjórnvöld. Einnig var í vinnunni horft til niðurstöðu úttektarnefndar sem skoðaði fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegt umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda hrunsins 2008.  

Mikill almennur vilji er til þess innan Alþýðusambands Íslands að lífeyrissjóðakerfið grundvallist á skylduaðild, samtryggingu, sjóðasöfnun og sjálfbærni kynslóðanna. Kerfið skuli sem fyrr byggja á kjarasamningi aðila vinnumarkaðarins sem fara sameiginlega með gæslu og ábyrgð á rekstri lífeyrisjóðanna. Fækka þarf lífeyrissjóðum til að styrkja kerfið. Fulltrúalýðræði ríkir í stjórnum sjóðanna þar sem lögð er áhersla á að tryggja að sem flestir hagsmunahópar eigi aðkomu en auka þarf gagnsæi í stjórnkerfinu og efla upplýsingagjöf sjóðanna. Þá þarf að tryggja að kynjahlutfall fulltrúaráðs og stjórna sjóðanna endurspegli betur sjóðfélagahópinn.

Alþýðusambandið leggur þunga áherslu á að lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði verði jöfnuð á við réttindi opinberra starfsmanna og til verði samræmt lífeyriskerfi á öllum vinnumarkaðnum.

Alþýðusambandið telur afar mikilvægt að verkaskipting milli almannatrygginga og lífeyrissjóða verði skýrð og það tryggt að launafólk hafi áþreifanlega betri hag af því á efri árum að hafa greitt iðgjöld til samtryggingarsjóða á starfsævinni. Til að auka sveigjanleika í starfslokum er mikilvægur launafólk geti valið sér séreignarsparnað sem tryggir raunverulegt val um fyrirkomulag starfsloka. Þá er brýnt að auka verulega áherslu á starfsendurhæfingu þeirra sem missa starfsorku til þess að tryggja eins og kostur er áframhaldandi þátttöku á vinnumarkaði.

Það er afdráttarlaust afstaða aðildarsamtaka Alþýðusambandsins að lífeyrissjóðirnir eigi að setja sér skýrar reglur um siðferði og samfélagslega ábyrgð. Þetta er brýnt svo auka megi tiltrú á kerfið og tryggja að atburðir líkt og þeir sem áttu sér stað í samfélagi okkar á liðnum árum endurtaki sig ekki. Einnig er brýnt að sjóðirnir setji sér skýra stefnu um með hvaða hætti þeir hyggjast fylgja fjárfestingum sínum eftir og sömuleiðis verði áhættudreifing aukin.