Viðbrögð sem vekja furðu

Við endurskoðun kjarasamninga um síðustu mánaðarmót kom fram skýr forsendubrestur hvað varðar ákvæði um launaþróun annarra hópa, þ.e. grunnskólakennarar höfðu hækkað töluvert umfram það viðmið sem lagt var upp með í kjarasamningunum ASÍ félaganna 2015. Engu að síður ákvað samninganefnd ASÍ að horfa framhjá þessum forsendubresti, en leggja þess í stað til að ákveðin sátt yrði í samfélaginu um að lyfta launum grunnskólakennara umfram aðra í þessari lotu.

Forysta KÍ brást hin versta við þessari tillögu ASÍ og formaður BHM sagði í útvarpi í morgun að það þurfi að sýna afstöðu og ólíkum hagsmunum skilning. Aðeins þannig væri hægt er að búa til nýtt vinnumarkaðsmódel á Íslandi. Viðbrögð þessara aðila vekja furðu, því það var einmitt það sem ASÍ var að leggja til í tilfelli grunnskólakennara. Ekki er hægt að skilja ummæli þeirra öðruvísi en að þeir séu að hafna tillögunni um þjóðarsátt um að hækka laun grunnskólakennara umfram aðra hópa.

Það má einnig skilja orðræðu forystumanna KÍ og BHM þannig, að almenni vinnumarkaðurinn eigi að búa til stöðugleikann hér á landi svo þeir geti bætt kjör sinna félagsmanna umfram aðra. Þannig verður það ekki. Það þurfa allir hópar að bera ábyrgð á því að hér ríki stöðugleiki. Það er rauði þráðurinn í því norræna samningalíkani sem menn hafa verið að horfa til. Það útilokar hins vegar ekki að sátt geti náðst um meiri kjarabætur einstaka hópa, enda var það tillaga ASÍ gagnvart grunnskólakennurum, sem þessir aðilar hafa hafnað.