Verðbólgan mælist 2,1% - föt og skór hækka í verði

Verðlag stóð í stað í nóvembermánuði að því er fram kemur í nýrri mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs sem birt var í morgun. Ársverðbólga mælist nú 2,1% en líkt og undanfarna mánuði mælist verðhjöðnun sé húsnæði undanskilið úr vísitölunni. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,4% frá fyrra mánuði og hefur undanfarið ár lækkað um 0,3%.

Mest áhrif til breytinga á verðlagi í mánuðinum hefur eigin húsnæði sem hækkar um 1,4% frá fyrra mánuði (0,22% vísitöluáhrif). Á móti vegur að verð á mat- og drykkjarvörum lækkaði um 0,7% milli mánaða (0,1% vísitöluáhrif) sem skýrist einkum af lækkun á innfluttum matvörum og grænmeti. Þá lækkar verð á flugfargjöldum til útlanda um 9,3% í nóvember (0,1% vísitöluáhrif).

Sérstaka athygli vekur að verð á fötum og skóm hækkar um 1,6% frá því í október en líkt og ASÍ hefur ítrekað bent á undanfarið hefur afnám tolla og gengisstyrking skilað sér illa til neytenda í formi lægra vöruverðs á fötum og skóm og sú virðist áfram vera raunin.

Undanfarið ár hefur verðlag á mat- og drykkjarvöru nánast staðið í stað. Séu undirliðir vísitölunnar skoðaðir má þó sjá að innlendar vörur hafa almennt hækkað í verði á sama tíma og innfluttar vörur hafa lækkað. Frá því í nóvember í fyrra hafa búvörur hækkað um 2,7% og aðrar innlendar vörur að grænmeti undanskyldu um 1,4%. Á sama tíma hafa innfluttar mat- og drykkjarvörur lækkað um 3,3% en grænmeti (bæði innlent og innflutt) hefur frá því í nóvember í fyrra lækkað um ríflega 10% en sá vöruliður er að jafnaði nokkuð sveiflukenndur.

Breyting á verði matar- og drykkjarvara í vísitöluneysluverðs frá nóvember 2015 – nóvember 2016

Matur- og drykkjarvörur – samtals

0,1%

 

Búvörur án grænmetis

2,7%

 

Grænmeti (innlent og innflutt)

-10,3%

 

Aðrar innlendar mat- og drykkjarvörur

1,8%

 

Aðrar innlendar vörur án grænmetis

1,4%

 

Innfluttar mat- og drykkjarvörur

-3,3%