Útspil ríkisstjórnarinnar liðkar tæplega fyrir gerð kjarasamninga

ASÍ Logo

Það var þungt í formönnum landssambanda og stærstu félaga innan Alþýðusambandsins eftir fund í dag þar sem forseti ASÍ, Drífa Snædal, kynnti hugmyndir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Forsetateymi ASÍ, Drífa auk Vilhjálms Birgissonar og Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, átti í morgun fund með formönnum stjórnarflokkana auk félagsmálaráðherra þar sem farið var yfir mögulegt innlegg ríkisstjórnarinnar. Eins og fyrr segir var ekki mikil kátína meðal verkalýðsforingjanna með þær hugmyndir.

Drífa Snædal forseti ASÍ lýsti deginum svona á Facebook síðu sinni:

Dagur vonbrigða í dag þegar við fengum kynningu á skattatillögum stjórnvalda.
1. Skattalækkun upp allann stigann (enginn að kalla eftir skattalækkun á hæstu tekjuhópana).
2. Sennilega frysting persónuafsláttar í nokkur ár (raunlækkun persónuafsláttar).
3. Ekkert meira inn í barnabóta- og húsnæðiskerfin en komið er (Fjármagn í barnabætur hafa ekki náð raungildi ársins 2010).
4. Enginn hátekjuskattur eða hækkun á auðlindagjöldum og fjármagnstekjuskatti (Tekjuöflun engin).
5. Skattalækkun á þá hópa sem enn ná ekki endum saman dugar varla fyrir einni ferð í Bónus og sú lækkun á að koma einhverntíman á næstu þremur árum.

Niðurstaðan: Þetta verður ekki til að liðka fyrir kjarasamningum.

Formenn stéttarfélaganna fjögurra sem þegar hafa vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara sendu frá sér svohljóðandi yfirlýsingu síðdegis:

Yfirlýsing
Stéttarfélögin fjögur sem leitt hafa yfirstandandi kjaraviðræður, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýsa reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum ASÍ í dag, 19. febrúar.

Viðræður hafa staðið tæpt eftir að SA lögðu fram tilboð í síðustu viku sem leitt hefði til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólk. SA höfnuðu í kjölfarið sanngjörnu gagntilboði samflotsfélaganna.

Vonir stóðu til að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður. Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá Ríkissáttasemjara.

Samflotsfélögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ