Útafkeyrslu kjararáðs þarf að leiðrétta strax

Starfshópur sem skipaður var af forsætisráðherra til að fjalla um málefni kjararáðs 23. janúar sl. varð sammála um að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins, farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá 2015, ákvarðanir þess verið óskýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Starfshópurinn varð einnig sammála um að leggja kjararáð niður og leiðrétta útafkeyrslu þess. ASÍ vill að það verði gert strax.   

Frá því í nóvember 2013 til dagsins í dag hafa laun þróast þannig:

Meðallaun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 39,72% eða 174.000,- kr. á mánuði.

Laun ráðherra hækkuðu um 64% eða 800.000,- á mánuði.

Laun ráðuneytisstjóra hækkuðu um 49% eða 570.000,- kr. á mánuði.

Skrifstofustjórar í ráðuneytum hækkuðu um 52% eða 445.000,- á mánuði.

Þingmenn hækkuðu um 48% eða 377.000,- kr. á mánuði.

Laun forseta Íslands hækkuðu um 46% eða 1.000.000,- á mánuði.

ASÍ vill að laun forseta, ráðherra, þingmanna, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra verði lækkuð strax um sem nemur útafkeyrslunni en fylgi eftir það almennri launaþróun. Meirihluti starfshópsins vill ekki framkalla lækkunina strax heldur „frysta“ laun þeirra þar til þau nái viðmiðum rammasamkomulagsins.

Ef farið yrði að tillögu ASÍ myndu laun ráðherra lækka um c.a. 300.000,- kr. á mánuði. Laun ráðuneytisstjóra um c.a. 107.000,- kr., laun skrifstofustjóra um  í ráðuneytum um c.a. 105.000,- kr., laun þingmanna um c.a. 65.000, kr. og laun forseta um c.a. 180.000,- kr.  

Frysting launa æðstu stjórnenda ríkisins gæti varað út árið 2018 fyrir suma en nokkur ár fyrir þá sem fengu mesta hækkun með úrskurðum kjararáðs. ASÍ telur að með því að „frysta“ haldi þessi hópur ekki einasta „ofgreiddum launum“ upp á 671 milljón króna heldur fái áframhaldandi ofgreiðslur upp á 378 miljónir til viðbótar þar til frystingunni líkur. Þegar upp verður staðið mun útafkeyrsla kjararáðs kosta ríkissjóð um 1.3 milljarða. Ef tillaga ASÍ næði fram mætti spara ríkissjóði 473 milljónir króna.

Boltinn er núna hjá ríkisstjórninni og Alþingi. Við hin bíðum.