Þóra Sig sýnir í Listasafni ASÍ

Föstudaginn 12. ágúst kl. 17:00 verður opnuð í Listasafni ASÍ sýning á verkum Þóru Sigurðardóttur.

Í sýningarskrá stendur m.a.: Þóra Sigurðardóttir (f. Akureyri árið 1954). Endurtekningar, viðsnúningar og umskipti eru gjarnan viðfangsefni hennar. Í list sinni nálgast hún þessi hugtök í efni, verkferlum og umhverfi og notar til þess ýmsa miðla, ekki síst teikningu. Í vinnu sinni með tví- og þrívíð form skapar hún sér leiðir til að horfa í gegnum marglaga yfirborð og byggingar.

Að loknu námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1979-81) stundaði Þóra háskólanám við Det Jyske Kunstakademi í Danmörku (1987-91). Hún lauk mastersprófi í menningarfræðum og menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2012 og hefur auk þess lært heimspeki og listasögu við Endurmenntunarstofnun H.Í. og Opna listaháskólann.

Verk Þóru hafa verið sýnd á Íslandi og erlendis frá árinu 1991 og finnast í einkasöfnum og listasöfnum hérlendis og erlendis, þ.m.t. Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands og Nýlistasafninu. Meðal annarra verkefna Þóru er listkennsla frá 1996, skólastjórnun (19982010) ásamt rekstri og sýningarstjórn myndlistasýninganna Dalir og hólar á Vesturlandi (2008-2014) og menningarviðburða á Nýp, Skarðströnd (frá 2006).