Samningstilboðum hafnað á báða bóga

Samtök atvinnulífsins gerðu VR, Eflingu, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Verkalýðsfélagi Akraness samningstilboð á miðvikudag. Stéttarfélögin svöruðu með gagntilboði í gær sem SA hafnaði svo á fundi deiluaðila hjá ríkissáttasemjara í dag.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í samtali við RÚV "að það sem farið var yfir í dag geti aldrei orðið grunnur að kjarasamningi. Kallað hefur verið eftir aðkomu stjórnvalda að þessari deilu. Sá grunnur og sú nálgun sem við höfum beitt, hjá Samtökum atvinnulífsins, er að skilgreina það svigrúm sem við teljum að sé til launahækkana sem við metum sem svo að sé forsenda þess að stjórnvöld komi að lausn þessara kjaraviðræðna.“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði við RÚV í dag að nú ætli verkalýðsforystan að ráða ráðum sínum. „Það sem er mikilvægast núna er að stjórnvöld einhendi sér í vinnuna um það hvað þau eru tilbúin til þess að gera til þess að það sé hægt að koma hér á kjarasamningi því að ef að það mun ekki gerast þá er alveg ljóst að það mun draga til tíðinda í næstu viku og við munum slíta viðræðum ef ekkert kemur frá stjórnvöldum sem að mun skipta máli,“ segir hann. Verði viðræðunum slitið er næsta skref að hefja undirbúning að því að boða til verkfalls.