Saga ASÍ á rafrænt form

Alþýðusamband Íslands og hugbúnaðarfyrirtækið Kosmos og kaos hafa undirritað samning um að Kosmos og kaos komi sögu ASÍ á rafrænt form þannig að hún verði aðgengileg almenningi á netinu. Farin verður ný leið í miðlun á efninu þar sem sagan verður sett upp sem sérstök vefsíða með öllum þeim kostum sem slíku fylgir, þ.e. leit að efnisatriðum og nöfnum í texta verður einföld, deilingar á efninu þægileg á samfélagsmiðlum og Google mun auðveldlega finna og vísa á efni í rafbókinni. Ekki er vitað til að þessi leið við rafræna bókaútgáfu hafi verið farin áður hér á landi. Búist er við að vinnu við yfirfærslu á sögu ASÍ á rafrænt form ljúki með vorinu.

Verkið sem hér er sett í rafbókarform kom upphaflega út árið 2013 í tveimur bindum en höfundur þess er Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur.

Mynd:
Það voru Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ og Inga Birna Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri Kosmos og kaos sem undirrituðu samninginn.