RSÍ ályktar um lífeyrissjóðsmál

Sambandsstjórnarfundur RSÍ haldinn á Egilsstöðum 6. – 7. maí 2010 fjallaði á fundi sínum um stefnumótunartillögur ASÍ í málefnum lífeyrissjóðanna. Fundurinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í þeim tillögum sem mótaðar hafa verið á fundum hjá ASÍ. Þær séu í samræmi við stefnu rafiðnaðarmanna. Hvað varðar reglur um kjör stjórna setur sambandsstjórn RSÍ þá kröfu að allir stjórnarmenn séu ávallt fullgildir sjóðsfélagar í viðkomandi lífeyrissjóði. Þannig hefur það verið í rafiðnaðargeiranum um langt árabil.

 

Ályktun um rannsókn á fjárfestingum lífeyrissjóða

Sambandsstjórnarfundur RSÍ haldin á Egilsstöðum 6. – 7. maí 2010 telur að ekki verði undan því vikist að verkalýðshreyfingin taki alvarlega þá gagnrýni, óánægju og tortryggni sem er meðal félagsmanna í garð fjárfestingastefnu og starfshátta lífeyrissjóðanna undanfarin ár. Tryggja verður trúverðugleika lífeyriskerfisins. Á síðasta ári höfðu stéttarfélögin á almennum markaði frumkvæði að því að setja fram tillögur um skýrar reglur um innri starfsemi lífeyrissjóðanna og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.

Sambandstjórn telur nauðsynlegt að nú verði stigið annað skref og skipuð þriggja manna nefnd óháðra og óvilhallra einstaklinga líkt og Rannsóknarnefnd Alþingis, sem fái það verkefni að kanna sérstaklega samskipti einstakra lífeyrissjóða við bankakerfið og stórfyrirtækin síðustu árin fyrir hrun í ljósi ásakana um óeðlileg áhrif á fjárfestingar lífeyrissjóðanna.

 

Rannsókn á aðdraganda og falli sparisjóðakerfisins

Sambandsstjórn RSÍ styður framkomnar tillögur um skipan sérstakrar rannsóknarnefndar, byggða á lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008, sem rannsaki aðdraganda og orsök falls íslenska sparisjóðakerfisins. Sú rannsókn nái að minnsta kosti til ársins 2001 eða aftur fyrir þann tíma þegar lagaumhverfi sparisjóðanna og rekstrarformi þeirra var breytt og vikið frá þeim samfélagssjónarmiðum sem þeir höfðu starfað eftir fram að því.

----------------------------------------------------------

Sambandsstjórnarfundur RSÍ Egilsstöðum 6. – 7. maí 2010.

Ályktun um ójafnræði í lífeyrismálum

Sífellt blasir betur við launamönnum á almennum vinnumarkaði það gríðarlega mikla ójafnræði sem stjórnmálamenn hafa búið launamönnum á almennum markaði í lífeyrismálum. Á sama tíma og starfsmenn almenna vinnumarkaðarins hafa þurft að taka á sig skerðingu lífeyrisréttinda hafa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna aukist, þrátt fyrir slælega ávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda.

Launamaður á almenna vinnumarkaðinum þarf að taka á sig tvöfalt högg vegna fjármálakreppunnar. Annars vegar rýrnun lífeyrisréttinda og hins vegar stórauknar skattaálögur til að standa undir ósjálfbæru lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Að óbreyttu verður reikningurinn fyrir þessu sendur til skattgreiðenda. Halli b- deildar og a-deildar  er á sjötta hundrað milljarða. Það þýðir að það þurfi að hækka skatta um 4 prósent til að standa undir þessu.

Aðildarsamtök ASÍ sömdu við SA árið 2000 um aukin framlög til lífeyrisréttinda með það að markmiði að jafna  réttindi á við opinbera starfsmenn. Deila um óréttláta misskiptingu landsmanna hvað lífeyrisréttindi varðar hafði þá staðið yfir um árabil og viðhorf samtaka opinberra starfsmanna hafði jafnan verið ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘. Með samkomulaginu við SA árið 2000 vildu félagsmenn ASÍ jafnframt koma á ákveðnum sveigjanleika í sínum réttindum þannig að þeir gætu flýtt starfslokum sínum án skerðinga á grunnréttindum – en ríkið hafði áður samið um lægri lífeyrisaldur fyrir þá ríkisstarfsmenn sem aðild áttu að tilteknum samtökum opinberra starfsmanna.

Þessi tilraun til jöfnunar réttinda tókst ekki, því strax í kjölfarið samdi ríkið við samtök opinberra starfsmanna um að bæta þessum réttindum ofan á þau réttindi sem fyrir voru, í stað þess að gefa færi á auknum sveigjanleika innan kerfisins. Því má segja að aðferðafræðin um ,,að jafna ætti kjörin upp á við‘‘ hafi fallið um sjálfa sig og eftir stendur það veigamikla verkefni að jafna lífeyrisrétt landsmanna.

Rafiðnaðarsamband Íslands hefur margoft bent á þetta misræmi og mótmælt því. En Alþingi hefur í engu tekið á þessu. Þetta ástand er algjörlega óásættanlegt og þessi sýndarveruleiki er komin að leiðarlokum. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist, á næstu árum munu stóru árgangarnir skella á lífeyrissjóðunum og þá verður ríkissjóður að reiða fram þá hundruði milljarða sem inn í kerfið vantar. Víki þingmenn sér enn einu sinni undan því að taka á þessum vanda nú, mun það einvörðungu leiða til þess að vandinn verður enn stærri.

Sambandsstjórn krefst þess að komandi kjarasamningum í haust verði þessi mál leidd til lykta og launamenn beiti öllu sínu afli til þess að þrýsta á stjórnvöld um viðunandi lausn.