Ríkisstjórnin tók tillit til gagnrýni ASÍ

ASÍ mótmælti kröftuglega áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka eftirlauna aldur á almennum vinnumarkaði í 70 ár á meðan Alþingismenn og opinberir starfsmenn fara á eftirlaun 65 ára. Þetta óréttlæti átti að vera í boði ríkisstjórnarinnar og á kostnað almennings.

Góðu heilli sá ríkisstjórnin að sér og dróg tillögurnar í frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar til baka og tók þar með undir þau sjónarmið Alþýðusambandsins að það séu órjúfanleg tengsl á milli jöfnunar lífeyrisréttinda og breytinga á lífeyristökualdri. Tillaga um hækkun lífeyristökualdurs í 70 ár á 24 árum, sem almenn samstaða hafði náðst um, mun verða flutt síðar samhliða frumvarpi um jöfnun lífeyrisréttinda. 

Ein meginforsenda þess að hægt sé að vinna áfram að nýju samningalíkani, sem undirbyggir stöðugleika og aukinn kaupmátt, er einmit jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins enda eru lífeyrisréttindi veigamikill þáttur umsaminna kjara.