Ný hagspá ASÍ - toppi hagsveiflunnar er náð

Horfur í efnahagsmálum 2017-2019 - hagspá ASÍ í heild sinni

Samkvæmt nýrri hagspá hagdeildar ASÍ fyrir árin 2017-2019 sýnir hagkerfið nú merki um að hægja muni á umsvifum eftir kraftmikinn hagvöxt undanfarinna ára. Toppi hagsveiflunar hefur verið náð en áfram verður umtalsverður hagvöxtur á spátímanum sem drifinn verður af vexti einkaneyslunnar fremur en auknum útflutningi eða fjármunamyndun.

Spáin gerir ráð fyrir að hægja muni á vexti ferðaþjónustunnar og að gengi krónunnar verði nokkuð stöðugt yfir spátímann. Þó eru margir óvissuþættir til staðar, ekki síst í ríkisfjármálum, ferðaþjónustu og húsnæðismálum og því gæti þróunin orðið önnur. Þannig myndi hraðari kólnun í ferðaþjónustu hafa töluverð áhrif víða, t.d. á vinnumarkaði og fasteignamarkaði sem drægi úr vexti einkaneyslu og fjárfestingum.

Vöxtur einkaneyslu nær hámarki á þessu ári en verður þó áfram töluverður á næstu árum. Það hægir á fjármunamyndun atvinnuveganna en íbúðafjárfesting verður helsti drifkraftur fjárfestinga yfir spátímann. Opinber fjárfesting eykst á tímabilinu en verður áfram í sögulegri lægð sem hlutfall af landsframleiðslu.  Búast má við því að fjármunamyndun í heild verði á bilinu 21,5%–22,3% af VLF yfir spátímann.

Húsnæðisverð er orðið sögulega hátt í kjölfar mikilla hækkana undanfarinna ára. Þær má rekja til lítils framboðs af nýju húsnæði, mannfjölgunar og aukinnar kaupgetu heimilanna. Aðstæður á húsnæðismarkaði eru því varasamar þeim sem hyggja á skuldsett húsnæðiskaup. Merki eru um að hægt hafi á umsvifum á húsnæðismarkaði en slíkar aðstæður kunna að vera tímabundnar þar sem svigrúm heimilanna til aukinnar skuldsetningar er enn nokkuð.

Framangreind þróun á húsnæðismarkaði er einnig megindrifkraftur verðbólgu undanfarinna missera. Verðbólga mældist 1,4% í ágúst en sé horft framhjá áhrifum húsnæðisverðs hefur verðlag hjaðnað um 3%. Verði þróun efnahagslífsins í takt við spá okkar eru forsendur fyrir því að verðbólga verði innan vikmarka á næstu árum, 2,6% á næsta ári og 2,9% árið 2019.

Litlar breytingar verða á vexti samneyslunnar á spátímanum, eða um 2% árlega en hlutdeild samneyslunnar í vergri landsframleiðslu heldur áfram að lækka og verður lægra en að meðaltali sl. tuttugu ár. Að óbreyttu munu tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna núverandi útgjöld þegar hægir á í efnahagslífinu og við blasir niðurskurður eða aukin skattheimta þvert á hagsveifluna.

Vinnumarkaðurinn gefur skýrar vísbendingar um að hápunkti hagsveiflunnar hafi verið náð og spáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega næstu tvö ár, verði 2,5% árið 2018 og 2,9% árið 2019. Aukin umsvif í ferðaþjónustu hafa átt stóran þátt í að fjölga störfum, en á síðustu mánuðum hefur störfum tengdum henni fjölgað hægar en síðustu ár. Vinnuaflseftirspurn er nú mætt með meiri innflutningi erlends vinnuafls en áður hefur þekkst hér á landi.