Kjarasamninga skal virða

Þú greiðir ekki iðnaðarmanni verkamannalaun fyrir að vinna þau störf sem hann er menntaður til. Þetta staðfesti Hæstiréttur með dómi sínum í gær. Niðurstaðan kemur ekki á óvart og staðfestir það sem talin hefur verið meginregla í vinnurétti hér á landi þ.e. að kjarasamningar hafa gildi um lágmarkskjör fyrir þau störf sem stéttarfélögin semja um, hvert á sínu sviði. Meginregla íslensk vinnuréttar er, að gildissvið kjarasamnings fer eftir þeirri starfsgrein sem samningurinn tekur til en ekki aðild einstaklings að stéttarfélagi. Er þessi regla byggð á 1. gr. laga nr. 55/1980 ( sjá nánar á Vinnuréttarvef ASÍ ). 

Í þessum nýja dómi Hæstaréttar í málinu nr. 568/2016, voru málavextir þeir að S sem hafði sveinsbréf í bakaraiðn réði sig til starfa í bakaríi B ehf. í maí 2012 og starfaði þar uns hann lét af störfum í lok júlí 2013. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur eða ráðning staðfest skriflega. S vann hefðbundin störf bakara á þessum tíma en fékk laun skv. kjarasamningi SGS og SA eins hann væri verkamaður. SGS semur hins vegar ekki um störf bakara, það geir MATVÍS. Í málinu krafðist S þess að B ehf. yrði gert að greiða sér mismun á launum sem S hefði annars vegar borið að fá sem menntaður bakari (kjarasamningur MATVÍS) og þeim launum sem hann fékk greidd frá B ehf. og tóku mið af því að hann hefði verið ráðinn til almennra verkamannastarfa. Í dómi Hæstaréttar kom fram að B ehf. yrði að bera hallan af sönnun um efni ráðningarsambandsins þar sem ekki hefði verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við S eins og skylt væri samkvæmt gildandi kjarasamningi, sbr. og tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE. (Sjá nánar um skriflega ráðningarsamninga ). Hæstiréttur telur síðan að þegar litið væri til menntunar S, tilgreiningar á launaseðli hans um starf bakara, svo og að forsvarsmönnum B ehf. hefðu ekki auðnast í skýrslugjöf fyrir dómi að útlista með trúverðugum hætti þann grundvallarmun sem væri á starfssviði bakara annars vegar og aðstoðarmanna þeirra hins vegar, hafði B ehf. ekki tekist að sanna að S hefði verið ráðinn til almennra verkamannastarfa. Var B ehf. því gert að greiða S umkrafða launakröfu upp á rúmar tvær milljónir auk 1.2 milljóna í málskostnað sem undirstrikar betur en margt annað að ágreining af þessum toga eiga menn ekki að láta sér detta í hug að bera undir dómstóla, svo óumdeild sem fyrrgreind meginregla íslensks vinnuréttar er.

 

Tengdar fréttir