Forsætisráðherra á erindi á þing Norræna verkalýðssambandsins

Þing Norræna verkalýðssambandsins (NFS) fer fram í Malmö 3. – 5. september nk. undir yfirskriftinni „Byggjum brýr“. Þingið sækir forystufólk frá 15 heildarsamtökum launafólks frá öllum Norðurlöndunum. Fulltrúar fyrir 9 milljónir launamanna og verkalýðsfélaga sem hafa verið mikilvægasta aflið í að byggja upp velferðarsamfélög Norðurlandanna.

Formaður NFS er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Sú venja hefur skapast að forsætisráðherra þess lands sem fer með formennsku hverju sinni flytji aðalræðuna á þinginu. Að þessu sinni kemur það í hlut Katrínar Jakobsdóttur og ríkir mikil eftirvænting meðal væntanlegra þingfulltrúa að heyra það sem hún hefur til málanna að leggja. Þá mun Katrín eiga fund með formönnum aðildarfélaganna til að ræða hin stóru viðfangsefni sem framtíðin ber í skauti sér fyrir vinnandi fólk á Norðurlöndum.

Fréttaflutningur síðustu daga og viðhorf ýmissa stjórnmálamanna vegna þátttöku Katrínar Jakobsdóttur á þingi NFS vekur furðu. Ástæðan er að fyrir stuttu var upplýst að varaforseti Bandaríkjanna muni koma hingað til lands í heimsókn á vegum utanríkisráðherra. Hafa sumir klifað á því að forsætisráðherra sé að „hundsa“ komu varaforsetans. Þá hafa stjórnmálamenn gagnrýnt „fjarveru“ Katrínar við þetta tilefni og haft uppi stóryrði. Þessi orðræða segir sitt um viðhorf og firringu þeirra sem henni hafa haldið á lofti. Þar er gert lítið úr mikilvægi þess að forsætisráðherra Íslands ávarpi og eigi samtal, við fulltrúa níu milljóna verkafólks á Norðurlöndunum og samtaka þess, um mörg brýnustu úrlausnarefni samtímans.

Meginviðfangsefni þings NFS að þessu sinni er þróun á vettvangi ESB/EES og Norræna kjarasamningamódelið. Þá verður fjallað um þær áskoranir sem lýðræðið og atvinnulíf framtíðarinnar standa frammi fyrir og framtíð verkalýðshreyfingarinnar. Forystufólk úr stjórnmálum, evrópskri verkalýðshreyfingu og sérfræðingar munu leggja sitt að mörkum í umræðunni.

 

Tengdar fréttir