Af þrákelkni ríkisstjórnar og Alþingis í eigin kjaramálum

Það hefur ekki farið framhjá neinum að ákvarðanir kjararáðs á síðasta ári hafa framkallað mjög hörð viðbrögð bæði almennings og forystumanna á vinnumarkaði, enda eru þær hækkanir ekki í neinu samhengi við þá launaþróun og launastefnu sem bæði ríki, sveitarfélög og  atvinnulíf, hafa samið um við fulltrúa sinna starfsmanna. Miðstjórn og samninganefnd ASÍ hefur verið algerlega afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni, að öll vinna við mótun nýs samningalíkans verði lögð til hliðar grípi stjórnvöld ekki inn í gagnvart ákvörðun kjararáðs. En við hvaða launaþróun á að miða í umfjöllun um launakjör æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa? Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í gær, sem gefin var út í tilefni af (takmarkaðri) úttekt Hagstofu Íslands á launaþróun alþingismanna kemur fram að launaþróun þeirra hafi verið áþekk þróun annarra á vinnumarkaði, ef miðað er við árið 2006. ASÍ svaraði þessari frétt með ábendingu um að á grundvelli hinnar samþykktu launastefnu – sem fjármálaráðherra á beina aðild að f.h. ríkissjóðs – hafi þingmenn hækkað miklu meira en um var samið á vinnumarkaði. Það er hins vegar ekki nema von að almenningur og fjölmiðlar séu í vanda með að átta sig á því um hvað þessi deila standi – orð virðast standa gegn orði og erfitt á fóta sig á því hvað er rétt og hvað er rangt. Ekki hjálpar það til það þarf ríflega fjögurra blaðsíðna greinargerð til að útskýra málið. Þar sem málið er grafalvarlegt og  líklegt til þess að hafa verulegar afleiðingar ætla ég að freista þess að leggja þetta fram sem ítarefni fyrir þá sem áhuga hafa á efni málsins en ekki bara yfirskriftum.

Grunnviðmiðun rammasamkomulagsins við 2013

Í aðdraganda að gerð rammasamkomulags aðila vinnumarkaðar í október 2015 var tekist nokkuð á um það hvaða viðmiðun ætti að liggja til grundvallar sameiginlegri launastefnu þessara aðila. Tekist var á um það hvort árið 2006 ætti að vera til viðmiðunar, sem var það ár sem gögn Hagstofunnar náðu til, eða árið 2013 sem markar upphaf samstarfsins í þeim hópi sem nefndur hefur verið SALEK – Samstarf um launaupplýsingar og efnahagslegar forsendur kjarasamninga. Af hálfu ASÍ og BSRB var lögð mikil áhersla á að miða við árið 2013 á meðan fulltrúar BHM og KÍ vildu miða við árið 2006. Niðurstaða málsins var að miða við árið 2013, en fulltrúar BHM og KÍ vildu þegar á það reyndi ekki skrifa undir en báru þá fyrir sig vantrausti og óvissu um jöfnun lífeyrisréttinda. Lítið hefur hins vegar verið fjallað um það af hverju ASÍ og BSRB vildu miða við 2013 en ekki 2006, en að baki þessu liggur sú staðreynd að í öllum kjarasamningum á tímabilinu 2006-2015 var lögð sérstök áhersla á hækkun lægstu launa með svokölluðum krónutöluhækkunum á taxtalaun. Í þessum kjarasamningum hefur þeim sem búa við markaðslaunakerfi hins vegar verið tryggð almenn prósentuhækkun launa. Reyndar má geta þess að ASÍ náði þeim merka áfanga í samningunum í maí 2011 að skilgreina almenna launahækkun sem hluta lágmarkskjaraákvæða með þeim hætti, að markaðslaunafólk ætti beinlínis rétt á því að fá a.m.k. almenna hækkun launa.

En hverju munar þetta í kjörum fólks? ASÍ og SA hafa undanfarin ár fengið Hagstofu Íslands til þess að skipa úrtaki sínu um almenna vinnumarkaðinn í tvennt, annars vegar þá sem eru með hrein dagvinnulaun sem eru undir hæsta taxta verkafólks í Starfsgreinasambandi Íslands og hins vegar þá sem eru með hrein dagvinnulaun þar fyrir ofan. Þetta gefur okkur möguleika á að greina áhrif krónutöluhækkana á  raunveruleg kjör. Á ofangreindri mynd má sjá þessa þróun frá árinu 2006.

Á myndinni kemur glögglega fram áhrif krónutöluhækkana á tekjulægsta hópinn, en hann hefur hækkað 12,5% meira en hópurinn sem er fyrir ofan hæsta launataxta verkafólks. Fulltrúar ASÍ og BSRB töldu að það væri ekki forsvaranlegt að velja viðmiðun sem markvisst hefði þurrkað hluta af þessum árangri, við að bæta kjör láglaunahópa, út við val á viðmiðunartíma.

Skyldur kjararáðs

Þegar sú alvarlega deila sem spunnist hefur um ákvarðanir kjararáðs er skoðuð í samhengi við þessa umræðu og þá niðurstöðu sem varð í viðræðum ASÍ og BSRB við ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur um grundvöllinn að hinni sameiginlegu launastefnu er vert að skoða 8. gr. laga um kjararáð nr. 47/2006. Í þessari grein segir annars vegar að ,,Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.‘‘ Samkvæmt þessu ákvæði er kjararáð skuldbundið til að meta bæði launasetningu (þ.e. sjálf launin og upphæð þeirra) og launaþróun sambærilegra hópa m.t.t. starfa og ábyrgðar. Þessi skuldbinding er bæði gagnvart þeim sem taka laun samkvæmt þessu ákvæði, en þessi skuldbinding er einnig gagnvart okkur hinum, að ekki sé verið að ,,hygla‘‘ þessum hópi umfram aðra í skjóli Alþingis og laga. Á þessu er sérstaklega hnykkt í niðurlagi greinarinnar, þar sem segir að ,,Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.‘‘

Varðandi hið síðar nefnda, þá var það einmitt mikið deiluefni í árslok 2005 þegar Kjaradómur komst að þeirri niðurstöðu að hækka laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna um 19,5% sem var langt umfram allt það sem samið hafði verið um á vinnumarkaði. Sú deila endaði með lagasetningu, þar sem Alþingi tók af umrædda hækkun og skipaði nefnd til að endurskoða lögin. Í greinargerð með lagafrumvarpinu var sérstaklega fjallað um þessa skuldbindingu sem ráðið starfaði eftir, en í fyrri lögum var ákvæði í 2. málsl. 5. gr. þágildandi laga sem sagði: „Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði“ en það ákvæði varð til í sambærilegri deilu sem varð um ákvarðanir Kjaradóms árið 1992. Í athugasemdum með því frumvarpi var þetta ákvæði skýrt með því að það væri hugsað til þess „að ekki sé hætta á að úrskurðir Kjaradóms raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu.  …...  Kjaradómi ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana“. Úr því að Kjaradómi hafði tekist að misskilja eða mistúlka þetta ákvæði (sem almennt verður þó að teljast ákaflega skýrt) var í frumvarpinu um kjararáð ákveðið að ítreka þennan vilja löggjafans með því að styrkja orðalag síðari málsgreinar 8. gr. frumvarpsins og kveða enn skýrar að orði um þetta efni en þar segir: „Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“ og var í greinargerðinni ,,áréttað að þessa sjónarmiðs skuli ætíð gætt‘‘.

Sambærilegir hópar

Það er því vert að skoða ákvörðun kjararáðs með þessi tvö sjónarmið að leiðarljósi, þ.e. launasetningu (þ.e. upphæð launa) og launaþróun sambærilegra hópa. Þar sem um æðstu stjórnendur ríkisins, bæði kjörna og ráðna, er að ræða er ekki óeðlilegt að taka mið af launum æðstu og næstæðstu stjórnendum í íslensku atvinnulífi. Byrjum á launasetningunni. Samkvæmt könnun Hagstofu Íslands á reglulegum heildarlaunum á vinnumarkaði var miðgildi heildartekna æðstu stjórnenda í atvinnulífinu ríflega 1.1 milljón króna á mánuði árið 2016. Eftir almenna úrskurð kjararáðs í júní 2016 voru ráðherrar með laun á bilinu 1,3-1,5 milljón króna og ráðuneytisstjórar með 1,4 milljón króna. Ef litið er á næsta lag í atvinnulífinu, þ.e. miðgildi yfirmanna framleiðslu- og rekstrardeilda í atvinnulífinu voru þeir með 725 þúsund krónur að meðaltali. Skrifstofustjórar voru þá með rúmlega 1 milljón króna í mánaðarlaun. Það er því vandséð hvernig kjararáð kemst að þeirri niðurstöðu, að hækka beri þá sem undir ráðið heyra um 35-45% í júlí í fyrra, þó tekið yrði tillit til breytinga á lífeyrisréttindum hjá hvorum aðila fyrir sig.

En hvernig hefur launaþróun þessara hópa verið undanfarin ár, hvort sem miðað er við launastefnu sem á grunn sinn í árinu 2006 eða 2013? Fullyrt hefur verið að ekki hafi verið búið að leiðrétta laun kjararáðshópsins eftir launalækkunina sem framkvæmd var árið 2009. Hagstofa Íslands var fengin til þess að stíga inn í þessa ,,deilu‘‘ og leggja fram upplýsingar um laun og launaþróun alþingismanna en ekki ráðherra og æðstu embættismanna. Ef við látum það liggja á milli hluta hvers vegna Hagstofunni var ekki falið að meta þróun hópsins í heild, þá verðum við að draga þá ályktun að launaþróun þingmanna endurspegli með sanngirni þróun hópsins í heild – a.m.k. fram til júlí 2016 því lækkun kjara þeirra náði ekki til embættismannanna! Eðlilegt hlýtur að vera að bera þessa þróun saman við sambærilegan hóp, þ.e. stjórnendur í atvinnulífinu en ekki launavísitöluna í heild, enda kveða lögin á um það.

Það er margt athyglisvert sem kemur fram í gögnum Hagstofu Íslands. Sem dæmi má sjá að lögin um lækkun launa alþingismanna voru felld úr gildi árið 2011 og við það tækifæri voru laun þeirra hækkuð aftur um sem nam lækkuninni. Þess skal geta að þessi ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur lagði mikilvægan grunn að því að breið sátt náðist í samfélaginu til að glíma við algerlega fordæmalausar aðstæður í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Er þetta einmitt dæmi um það, hvernig leiðtogar þjóðar geta skapað mikilvægt fordæmi fyrir landsmenn til að varða leiðina í stað þess að krefjast sérkjara eða sérstaklega ívilnandi launastefnu sér til handa!

Að þessari launalækkun frátalinni má glögglega sjá að þróun launa viðmiðunarhópa kjararáðs hefur verið í góðu samhengi við þróun launa sambærilegra hópa á vinnumarkaði þangað til umræddir úrskurðir voru felldir í júlí á síðast ári.

Niðurstaðan af þessari skoðun á ákvæðum 8. gr. laganna um kjararáð sem fjalla um skuldbindingar ráðsins um bæði launasetningu og launaþróun þessara hópa er því sú, að úrskurðir kjararáðs eru ekki í neinu samhengi hvorki við launasetningu sambærilegra hópa né launaþróun þeirra hvort sem litið er til ársins 2006 eða 2013. Í stað þess að úrskurða um 35-45% hækkun launa í júlí hefði í mesta lagi verið hægt að rökstyðja 7,5% hækkun fyrir þessa hópa til að setja þá á sömu vísitölu launa og sambærilegir hópar á vinnumarkaði hafa notið, þ.e. stjórnendur.

Er kjararáð að hygla 

Í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um þróun launa alþingismanna segir eftirfarandi: ,,Í þessu sambandi má benda á að launaþróun alþingismanna frá árinu 2006 og fram að síðustu ákvörðun kjararáðs var mun lakari en launaþróun annarra hópa á vinnumarkaði. Heildarlaun þingmanns sem setið hefur á þingi allt tímabilið eru því mun lægri en ef þau hefðu fylgt þróun launavísitölu.‘‘  Ég hef þegar sýnt fram á, að fyrri hluti þessarar setningar er einfaldlega röng þegar litið er til sambærilegra hópa á vinnumarkaði. Hvað seinni hlutann varðar er hins vegar rétt að líta aðeins nánar á þessa framsetningu – að bera launaþróun þingmanna saman við þróun launavísitölunnar. Það er mikilvægt að átta sig á því að þróun launavísitölunnar er niðurstaða mjög margra þátta, þar sem hækkanir einstakra hópa vegast á við lækkanir annarra. T.d. var mikið um það á almennum vinnumarkaði á árinu 2009 og 2010 að fyrirtæki sem lentu í afkomuvanda semdu við sitt starfsfólk sem var á markaðslaunum að taka á sig launalækkun til þess að freista þess að tryggja sem flestum áframhaldandi starf. Á sama tíma voru í kjarasamningum tiltölulega miklar launahækkanir gagnvart þeim tekjulægstu. Eins og fram kom í upphafi þessarar greinargerðar hafa lægstu laun hækkað 12,5% meira en þeirra sem eru með laun yfir hæsta taxta verkafólks. Í þeim lögum sem kjararáð starfar eftir og þeirri greinargerð sem þáverandi fjármálaráðherra lagði fram með frumvarpi til þeirra laga, var sérstaklega áréttað að kjararáð ætti ætíð að forðast þessa viðmiðun. Það skýtur því skökku við að það ráðuneyti sem ber ábyrgð á þessum lögum skuli í raun setja þetta svona fram, því í reynd er verið að krefjast þess að þessir hópar – sem voru fyrir þessar ákvarðanir í júlí og október á síðast ári með laun á bilinu 1-1,5 milljón króna – fái í sinn vasa þann 12,5% mun sem er á milli hækkunar þeirra tekjulægstu og þeirra tekjuhærri bætt með tæplega 160 þúsund króna sérstakri launahækkun. Þess má geta að sérstök hækkun launa þessara hópa verkafólks og afgreiðslufólks umfram þá tekjuhærri var um 30 þúsund krónur. Það gefur augaleið að þetta stenst ekki neina skoðun m.t.t. þeirra laga sem kjararáð á að starfa eftir, því með þessari viðmiðun er kjararáð klárlega að hygla hópum gagnvart ákvæði sem var ætlað að verja allra tekjulægsta fólkið í landinu – aðgerð sem allir stjórnmálaflokkar stóðu að og hvöttu til!

Niðurstaða á ábyrgð stjórnvalda

Draga má þá ályktun að úrskurðir kjararáðs um laun kjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna eru algerlega á skjön við öll ákvæði þeirra laga sem ráðið starfar eftir, hvort sem um er að ræða launasetningu þessara hópa (þ.e. upphæð launanna), launaþróun sambærilegra hópa á vinnumarkaði eða ákvæði laganna um samhengi við almenna launastefnu.  Því er það niðurstaða að ríkisstjórn og Alþingi hafi í þetta sinn ekki lakari málefnagrunn til þess að grípa inn í þessa atburðarás en ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar hafði í janúar 2006 eða ríkisstjórn Davíðs Oddsonar hafði árið 1992. Kjararáð hefur ekki farið að lagatilmælum og eini aðilinn sem getur gripið inn í þetta er löggjafarvaldið, það er ekki öðrum til að dreifa. Verði það ekki gert er ekki hægt að komast að annarri skoðun en þeirri, að þessir aðilar setji eigin hagsmuni ofar þjóðarhagsmunum þrátt fyrir nokkuð skýr ákvæði og markmið þeirra laga sem um þetta gildir. Það er ekki með nokkru móti hægt að sætta sig við meiri hækkun þessara hópa en sem nemur um 7,5% í stað áðurnefndra 35-45%! Framlag forsætisnefndar Alþingis er í þessu samhengi afar léttvægt fundið.