Vinnuréttarvefur

Hlutverk trúnaðarmanna

Hlutverk trúnaðarmanns samkvæmt 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er að gæta þess að gerðir samningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Með þessu er átt við öll réttindi samkvæmt lögum eða reglum sem varða persónuleg réttindi manna, en það eru þau réttindi sem eru svo nátengd andlegu eða líkamlegu lífi manna að þau verða ekki frá því greind. Einnig má atvinnurekandi að sjálfsögðu ekki hrófla við neins konar fjárréttindum starfsmanna. Fjárréttindi er réttur yfir eða til fémæta, það er gæða, sem hafa fjárgildi og er þannig háttað í eðli sínu að þau geta greinst frá eiganda þeirra og gengið manna á milli.

Ýmis réttindi opinbers réttarlegs eðlis eru einnig friðhelg svo sem kosningaréttur og kjörgengi og væri atvinnurekanda allskostar óheimilt að meina starfsmönnum að neyta kosningaréttar eða beita þá þrýstingi í þeim efnum.

Fjallað er um verkefni trúnaðarmanna í kjarasamningum og um tiltekin verkefni í lögum ( sjá undirkafla um Upplýsingar og samráð ) en einnig byggist hlutverk hans á þeim venjum sem skapast hafa um störf hans. Trúnaðarmönnum ber að vinna að bættum kjörum vinnufélaga sinna, jafnframt því sem þeir eru talsmenn atvinnuöryggis, félagslegs öryggis, skynsamlegra stjórnarhátta á vinnustöðum og eru samráðsaðilar vegna breytinga á vinnustöðum.

Trúnaðarmaður er einnig fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum og sem slíkur er hann tengiliður félagsins og starfsmannanna.

Verkamenn skulu snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar og trúnaðarmanni ber að sinna þeim þegar í stað. Honum er, í samráði við verkstjóra, heimilt að verja eftir því sem þörf krefur tíma til trúnaðarmannsstarfa og skulu laun ekki skerðast af þeim sökum. Trúnaðarmanni er heimilt í tengslum við ágreiningsefni að yfirfara gögn og vinnuskýrslur varðandi ágreiningsefnið og ber honum að fara með þau gögn sem trúnaðarmál. Hann skal á vinnustað hafa aðgang að læstri hirslu og síma í samráði við verkstjóra.

Þar sem trúnaðarmanni er einnig skylt að gæta þess að gerðir vinnusamningar séu haldnir og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt starfsmanna er eðlilegt að hann hafi fullt samráð og samvinnu við stéttarfélagið um ágreiningsefni sem upp koma til að leita leiða um lausn þeirra. Góð samskipti trúnaðarmanns og vinnufélaga eru grundvöllur árangursríks starfs. Nauðsynlegt er að trúnaðarmaður fræði nýliða á vinnustað um helstu reglur og venjur og um verkalýðsfélagið.

Fjallað er um hlutverk trúnaðarmanna í lögum stéttarfélaga. Þannig segir svo dæmi sé tekið í 17. gr. laga Eflingar-stéttarfélags að trúnaðarmenn skuli hafa eftirlit með því að lögum félagsins, samþykktum og samningum sé hlítt í hvívetna. Trúnaðarmenn eru tengiliðir milli félagsstjórnar Eflingar og starfsmanna félagsins og þess verkafólks sem vinnur á viðkomandi vinnustað og eiga þeir rétt á aðstoð stjórnar og starfsmanna í störfum sínum.

Þegar rætt er um trúnaðarmann er oftast átt við trúnaðarmann í merkingu laga nr. 80/1938. Danskir fræðimenn hafa skilgreint hugtakið þannig að átt sé við þann starfsmann, sem er valinn af samstarfsmönnum sínum á vinnustað, til þess að vera talsmaður þeirra og fulltrúi gagnvart vinnuveitanda. 

Jafnframt  hlýtur það að vera grundvöllur þess að tala um trúnaðarmann í tæknilegum skilningi að kjarasamningurinn sem kveður á um samskipti og kjör aðila á vinnustað, viðurkenni trúnaðarmanninn, sem talsmann gagnvart atvinnurekanda, þannig að hann hafi ekki aðeins sérstöðu meðal starfsmanna, heldur einnig að hinum sérstöku reglum um réttarstöðu trúnaðarmanna sé beitt. Danski fræðimaðurinn Per Jacobsen skilgreinir hugtakið þannig að trúnaðarmaður sé launþegi, sem sé valinn af samstarfsmönnum sínum til þess að gæta hagsmuna þeirra gagnvart vinnuveitanda. Hann sé þannig tengiliður milli hins einstaka launþega og stjórnar fyrirtækisins. Ef trúnaðarmaður er valinn samkvæmt heimild í kjarasamningi er hann einnig fulltrúi stéttarfélags á vinnustað og á þess vegna einnig að gæta hagsmuna stéttarfélagsins.

Leggja verður til grundvallar til að unnt sé að tala um trúnaðarmann í lögfræðilegri merkingu það skilyrði að val hans byggist á heimild í lögum eða á samningi milli aðila og að trúnaðarmaður sé skipaður af stéttarfélagi til að sinna starfanum.

Hugtakið trúnaðarmaður kann þó að hafa víðtækari merkingu í einstökum samningum eða lögum. Þannig er ákvæði um það í samkomulagi um trúnaðarmenn milli fjármálaráðherra og félaga BSRB að þeir teljist trúnaðarmenn í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem eru:

1. Kjörnir trúnaðarmenn samkvæmt 28. gr. þeirra laga,

2. Kjörnir trúnaðarmenn samkvæmt 2. gr. samkomulagsins, sem fjallar um sameiginlegan trúnaðarmann fyrir fleiri en einn vinnustað eða vakt, 

3.Kjörnir stjórnarmenn stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra,

4. Kjörnir samninganefndarmenn stéttarfélaga.


Sögulegur þáttur 

Ákvæði um trúnaðarmenn í kjarasamningum komu fyrst inn í samningum verktaka Sogsvirkjunar og Vinnuveitendafélagsins 1935, en fyrir þann tíma höfðu sum íslensku verkalýðsfélaganna átt sína eigin trúnaðarmenn á stærri vinnustöðum. Þeir voru nánast umboðsmenn félagsstjórnanna gagnvart félagsmönnum, oft stjórnarmenn eða hinir virkustu í félagsstarfinu.  Verkalýðshreyfingin í nágrannalöndunum var langt á undan íslensku verkalýðsfélögunum að þessu leyti.
               
Tildrög þess að samningur komst á um trúnaðarmenn við Sogsvirkjun 1936 voru þau að danskt verktakafyrirtæki hafði yfirstjórn á framkvæmdum við Sog og gerði samning við verkamenn, sem þar unnu. Áður en sá samningur komst á hafði fyrirtækið átt í deilum við verkamenn sem höfðu leitt til verkfalls. Því lauk síðan með fyrrgreindu samkomulagi. 
Ekki er ólíklegt, að þetta ákvæði sé komið inn í samninginn að mestu leyti fyrir tilstilli Dananna. Að minnsta kosti var það ekki hluti af kröfugerð verkamannanna. Áhugi íslensku stéttarfélaganna á hinu nýja fyrirkomulagi var þó ekki meiri en svo að trúnaðarmaður var ekki valinn fyrr en tæpu ári eftir að kjarasamningurinn var gerður.

Árið 1937 gerði Dagsbrún kjarasamning við Vinnuveitendafélag Íslands  þar sem kveðið var á um það að stjórn Dagsbrúnar hafi verið heimilt að velja sér trúnaðarmann úr hópi verkamanna á hverjum vinnustað.
               
Með lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 voru síðan lögfest ákvæði um trúnaðarmenn, sem enn eru í fullu gildi.
               
Á þeim áratugum sem liðnir eru frá setningu laganna hefur skilningur aukist mjög á því hvers virði traust og vel skipulagt trúnaðarmannakerfi er fyrir verkalýðshreyfinguna og launafólk allt. Í heildarkjarasamningum aðila vinnumarkaðarins 1977 var gert sérstakt samkomulag um trúnaðarmanninn, stöðu hans og starf, og er það samkomulag til fyllingar lagaákvæðunum frá 1938. Einnig eru ákvæði um trúnaðarmenn í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, svo og ákvæði um öryggistrúnaðarmenn í lögunum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.