Vinnuréttarvefur

Útreikningar veikindaréttar

Ekki segir í lögum um veikindarétt nr. 19/1979 við hvaða tímabil réttindi miðist. Sú regla er þó almennt viðurkennd að finna veikindadaga þannig að líta til 12 síðustu mánaða frá upphafsdegi veikinda og reikna út hve mikinn veikindarétt starfsmaður hefur áunnið sér og hve mikinn veikindarétt starfsmaður hefur nýtt sér.


Fram að kjarasamningum á árinu 2000 var skv. flestum kjarasamningum í gildi svokölluð endurtekningarregla þ.e. að hverjum nýjum veikindum fylgdi sjálfstæður veikindaréttur. Í kjarasamningunum á árinu 2000 var regla þessi afnumin og heildar veikindaréttur lengdur. Veikindarétturinn er nú heildarréttur á hverju 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar sjúkdóms. 
 
Við þessar breytingar á kjarasamningum á árinu 2000 var sérstaklega bókað að þessi breyting hefði engin áhrif á slysarétt launafólks. Þannig skapar hvert slys á leið til vinnu, á leið frá vinnu og við vinnu sjálfstæðan rétt hvert um sig.