Skráning vinnutíma

Ágreiningur rís stundum um þann vinnutíma sem launamaður skilar. Í mörgum tilvikum er stuðst við stimpilklukkur eða aðra svipaða skráningu og eru ágreiningsefni þá að jafnaði auðleyst. Þessi háttur er þó alls ekki alltaf á og í þeim tilvikum er mikilvægt að starfsmenn haldi sjálfir samtímaskráða dagbók um vinnu sína. Slík skráning getur haft mikilvægt sönnunargildi verði ágreiningur. Um þetta var m.a. fjallað í Hrd. nr. 335/2002. Þar segir: "Kröfur sínar um fjárhæð yfirvinnugreiðslna byggir stefndi á skráningu daglegs vinnutíma í dagbók. Hefur áfrýjandi ekki hrakið staðhæfingu hans um að sú skráning hafi verið framkvæmd jafnóðum. Þá hefur hann ekki lagt fram gögn er hnekkja þeirri skráningu, enda verður ekki séð að gögn sem áfrýjandi lagði fram um verkskráningar taki til annars en skráningar á vinnu stefnda vegna útseldra verka, en í málinu liggur fyrir að stefndi vann einnig við verkefni sem ekki voru seld út. Verður skráning stefnda  því lögð til grundvallar og staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð yfirvinnugreiðslna."