Vinnutími

Ákvæði um vinnutíma launafólks er annars vegar að finna í lögum um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971 og hins vegar í kjarasamningum. Í lögum um 40 stunda vinnuviku er að finna þá meginreglu að starfsmaður í fullu starfi telst hafa skilað fullri vinnuskyldu samkvæmt ráðningarsamningi vinni hann 8 tíma á dag 5 daga vikunnar, eða alls 40 vinnustundir. Það eru hins vegar kjarasamningar einstakra stéttarfélaga sem svara því raun hvernig vinnutíma starfsmanna skuli háttað. Í þeim er kveðið á um svokallaðan virkan vinnutíma en með því hugtaki er almennt átt við þann tíma sem atvinnurekandi greiðir fyrir að frádregnum kaffihléum á dagvinnutímabili. Svo dæmi sé tekið þá segir í aðalkjarasamningi SGS og SA sem gildir frá 1. febrúar 2008, gr. 2.1.1, að virkur vinnutími í dagvinnu á viku skuli vera 37 klst. og 5 mín. og að vinnutíma skuli hagað með eftirfarandi hætti:

a.  kl. 07:55-17:00 mánudaga til föstudaga.

b.  kl. 07:30-16:35 mánudaga til föstudaga.

Heimilt er að haga dagvinnutíma með öðrum hætti, ef vinnuveitandi og verkamenn koma sér saman um það. Þó skal dagvinna hvers starfsmanns ávallt unnin með samfelldri vinnuskipan á degi hverjum og aldrei hefjast fyrr en kl. 07:00. Upphaf dagvinnu hvers starfsmanns skal ákveðið í ráðningarsamningi hans og verður ekki breytt nema að undangenginni uppsögn eða með samkomulagi.

Í kjarasamningum er mælt fyrir um hver vikulegur vinnustundafjöldi  starfsmanna í fullu starfi skuli vera, (talið í virkum vinnustundum eins og ofan greinir), og um leið skilgreindur sá tímarammi frá morgni til kvölds sem þeirri vinnu skuli skilað á frá mánudegi til föstudags. Þessi daglegi tímarammi er kallaður dagvinnutímabil. Dagvinnutímabilið er haft rýmra en dagleg vinnuskylda starfsmanna og býður atvinnurekendum og starfsmönnum upp á ákveðinn sveigjanleika við ákvörðun eða samninga  um hvenær vinna skuli hefjast að morgni og ljúka að kvöldi. Dagleg vinnuskylda starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi getur þannig verið 8 klst. en dagvinnutímabilið 10 klst.

Fyrst og fremst gilda því á þessu sviði lög um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971, kjarasamningar en einnig tilskipun 2003/88/EB (áður 93/104/EB) um vinnutíma sem lög og kjarasamningar hér á landi endurspegla. 

Fjallað um vinnu- og hvíldartímareglur í kaflanum um Aðbúnað og hollustuhætti.

Skráning vinnutíma

Ágreiningur rís stundum um þann vinnutíma sem launamaður skilar. Í mörgum tilvikum er stuðst við stimpilklukkur eða aðra svipaða skráningu og eru ágreiningsefni þá að jafnaði auðleyst. Þessi háttur er þó alls ekki alltaf á og í þeim tilvikum er mikilvægt að starfsmenn haldi sjálfir samtímaskráða dagbók um vinnu sína. Slík skráning getur haft mikilvægt sönnunargildi verði ágreiningur. Um þetta var m.a. fjallað í Hrd. nr. 335/2002. Þar segir: "Kröfur sínar um fjárhæð yfirvinnugreiðslna byggir stefndi á skráningu daglegs vinnutíma í dagbók. Hefur áfrýjandi ekki hrakið staðhæfingu hans um að sú skráning hafi verið framkvæmd jafnóðum. Þá hefur hann ekki lagt fram gögn er hnekkja þeirri skráningu, enda verður ekki séð að gögn sem áfrýjandi lagði fram um verkskráningar taki til annars en skráningar á vinnu stefnda vegna útseldra verka, en í málinu liggur fyrir að stefndi vann einnig við verkefni sem ekki voru seld út. Verður skráning stefnda  því lögð til grundvallar og staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð yfirvinnugreiðslna."