Skuldajöfnuður

Meginreglan er eins og fyrr segir að laun skal greiða í peningum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups er tekið fram að ekki megi greiða laun með skuldajöfnuði nema um það hafi áður verið sérstaklega samið. Lagaákvæðið var sett fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur greiddu starfsmönnum sínum með vörum, fatnaði eða þess háttar. Svo getur háttað til, að atvinnurekandi telji sig eiga gagnkröfu á starfsmanninn og vilji nota hana til þess að greiða launin (skuldajafna). 

Telja verður að gera megi undantekningu frá banni laganna um greiðslu verkkaups við skuldajöfnuði ef kröfurnar eru samrættar, samanber t.d. Hrd. 157/1977. Þar háttaði svo til að starfsmaður átti kröfu vegna vangoldinna launa en atvinnurekanda var leyft að skuldajafna með kröfu vegna ólögmæts brotthlaups starfsmannsins úr vinnu. Sem dæmi um kröfur sem ekki eru "samrættar" launakröfunni má nefna skaðabætur vegna tjóns sem sem starfsmaður veldur í starfi sínu. Sem dæmi má nefna að ef afgreiðslumaður í verslun brýtur dýran kristalvasa verður andvirði vasans ekki dregið frá kaupi starfsmannsins. Setji atvinnurekandi fram skaðabótakröfu gagnvart starfsmanni af ástæðum eins og þessum verður hann að öllu jöfnu að innheimta bæturnar með öðrum hætti en draga þær frá launum. Sjá hér ummæli héraðsdómara í Hrd. 293/1988. Í
 Hrd. nr. 335/2002 var tekist á um kröfu atvinnurekanda á hendur starfsmanni um endurgreiðslu kostnaðar vegna náms starfsmanns hans í Rafiðnarskólanum sem hann vildi draga frá launum sem starfsmanni báru á uppsagnarfresti. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gagnkrafa atvinnurekandans hefðu ekki slík tengsl við launakröfuna að réttlætti skuldajöfnun.