Vinnuréttarvefur

Vinnu- og hvíldartímareglur

Um vinnutíma starfsmanna er fjallað í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og í kjarasamningum þ.m.t. kjarasamningi ASÍ og VSÍ(SA) um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma og samkynjakjarasamningi á opinberum vinnumarkaði.  


Vinnutímatilskipunin

Reglur um vinnu- og hvíldartíma starfsmanna eru byggðar á tilskipun 93/104/EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. 

Markmið tilskipunarinnar er að setja lágmarkskröfur til að stuðla að umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi, til að tryggja aukið öryggi og heilsuvernd launafólks.

Tilskipunin var upphaflega innleidd hér á landi með svokölluðum 
vinnutímasamningi ASÍ og VSÍ sem undirritaður var 30. desember 1996. Samsvarandi samningar voru gerðir í janúar 1997 milli ASÍ, BHM, BSRB og KÍ annars vegar og ríkisins, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar.

Helstu meginreglur eru eftirfarandi:

11. klst. samfelld lágmarkshvíld á hverju 24 klst. tímabili. Miðað er við heildstæðan vinnutíma hjá sama atvinnurekanda og skiptir því ekki máli hvort unnin eru tvö eða fleiri mismunandi störf fyrir sama atvinnurekanda eða hvort í gildi séu einn eða fleiri ráðningarsamningar við hann. 

Einn hvíldardagur á viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, þ.e. 35 klst. samfelld hvíld.

Hámarksvinnutími á viku skal að meðaltali ekki vera meiri en 48 virkar vinnustundir að yfirvinnu meðtalinni.

Ef nauðsynlegt er að skerða daglega eða vikulega lágmarkshvíld skal veita starfsmönnum samsvarandi hvíld síðar. Frítökuréttur skapast þegar dagleg lágmarkshvíld er skert.

Sjá einnig umfjöllun um vinnutíma í kaflanum "Laun og vinnutími".