Um ASÍ

05. apríl 2017

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað í öllum verslunum síðan í haust

Vörukarfa ASÍ hefur lækkaði frá því í september 2016 hjá öllum þeim 10 verslununum sem skoðaðar voru vikuna 20.–24. mars 2017. Mest er lækkunin 5,6% hjá Hagkaup og 5,5% hjá Krónunni. Minnsta lækkunin er hjá Samkaup-Strax, 0,2% og Víði 0,4%.

Á umræddu tímabili má sjá verðbreytingar í öllum vöruflokkum bæði hækkanir og lækkanir. Grænmeti og ávextir hafa lækkað töluvert í verði hjá öllum verslununum og brauð og kornvörur hjá öllum nema hjá Víði.   

Á meðfylgjandi súluriti má sjá verðbreytingar á vörukörfu ASÍ frá september 2016 til mars 2017. Lækkunin er sem fyrr segir 0,2%-5,6%.

Brauð og kornvörur hækkuðu í Víði

Í töflunni hér að neðan má sjá verðbreytingar á milli mælinga í einstaka vöruflokkum. Grænmeti og ávextir lækkuðu í öllum verslunum og var lækkunin á bilinu 2,7% hjá Samkaup-Strax til 13,7% í 10-11. Brauð og kornvörur lækkuðu í níu af tíu verslunum sem skoðaðar voru og var lækkunin á bilinu 0,7% til 7,4% en hjá Víði hækkuðu þessar vörur um 1,6%.

Kjötvörur hækkuðu í sjö af tíu verslunum á bilinu 0,7% til 7,15%, mest hjá Samkaup-Úrvali en minnst hjá Nettó. Vörur í þessum flokki lækkuðu hins vegar í verði hjá þremur verslununum Krónunni (10,9%), Iceland (9,3%) og Hagkaup (6%). Mjólkurvörur, ostar og egg hækkuðu í sex af tíu verslunum og var hækkunin á bilinu 0,3%-6,4%, hins vegar lækkuðu fjórar verslanir sömu vöru um 2,3%-4,3%.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Í lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland; í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Samkaup-Úrvali, Tíu-ellefu, Samkaupum-Strax, Víði og Kjarval.  

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna er að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Twitter Facebook
Til baka