Um ASÍ

20. mars 2017

Þúsund íbúðir í samstarfi verkalýðshreyfingar og Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg hefur gengið frá úthlutun lóða til Bjargs íbúðafélags sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða, en stofnendur þess eru ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ, Elín Björgu Jónsdóttur formanni BSRB og Birni Traustasyni framkvæmdastjóra Bjargs - íbúðarfélags lóðabréf þessu til staðfestingar í Spönginni í dag (sjá mynd).

Úthlutun byggingarréttar er á þremur stöðum í borginni:
• Í Spönginni í Grafarvogi við Móaveg 2 – 4, en nýju skipulagi Spangarinnar er gert ráð fyrir 120 íbúðum í 7 sjálfstæðum 1-4 hæða byggingum sem raðast kringum miðlægan garð.
• Í Úlfarsárdal við Urðarbrunn 33 – 35 og 130 – 134. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir 53 íbúðum í 2 sjálfstæðum byggingum.
• Á Kirkjusandi við Hallgerðargötu er gert ráð fyrir 63 íbúðum á lóðum G og H.

Leiguheimili með áherslu á hagkvæmni og gæði
Íbúðir Bjargs verða svokölluð Leiguheimili og byggja á nýjum húsnæðislögum um almennar íbúðir og verða leigðar út til fólks með lágar- og meðaltekjur. Að sögn Björns Traustasonar framkvæmdastjóra Bjargs verður lögð áhersla á hagkvæmni í byggingu, rekstri, endingu og góða nýtingu á rýmum, án þess að það verði á kostnað gæða.

Við uppbygginguna verður horft til hugmynda um Nýju Reykjavíkurhúsin um félagslega blöndun, íbúalýðræði og hönnun. Miðað er við að Félagsbústaðir Reykjavíkurborgar eignist eða fái til úthlutunar að jafnaði 10-20% íbúða í uppbyggingarverkefnum. Íbúðir á skipulagssvæðunum eru fyrir fjölbreyttan hóp íbúa og eru misstórar.


Sjálfbær rekstur íbúðafélags
Bjarg íbúðafélag er eins og áður segir rekið án hagnaðarmarkmiða, sem sjálfseignastofnun Alþýðusambands Íslands og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði með því að byggja, kaupa, leigja, stjórna, viðhalda og endurbyggja leiguíbúðir á grundvelli laga nr. 52-2016 um almennar íbúðir.

ASÍ og BSRB leggja fram stofnfé til þessa almenna íbúðafélags. Þá munu aðildarfélög veita íbúðafélaginu víkjandi lán til að tryggja félaginu rekstrarfjármögnun fyrstu árin, eða þar til reksturinn er orðinn að því umfangi að hann verði sjálfbær.


Viljayfirlýsing um þúsund íbúðir
Fyrir ári síðan, á 100 ára afmæli ASÍ í mars 2016, gáfu Reykjavíkurborg og ASÍ út viljayfirlýsingu og er lóðaúthlutunin nú á grunni hennar.

Reykjavíkurborg stefnir að því að úthlutað verði lóðum fyrir uppbyggingu 1.000 almennra íbúða (leiguíbúða) á grundvelli laga frá Alþingi sem jafnframt feli í sér stofnframlag Reykjavíkurborgar til uppbyggingarinnar í samræmi við ákvæði laganna.

Áætlunin er þessi:
• árið 2016 verði úthlutað lóðum fyrir 150 íbúðir
• árið 2017 verði úthlutað lóðum fyrir 250 íbúðir
• árið 2018 verði úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir
• árið 2019 verði úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir.

Twitter Facebook
Til baka