Um ASÍ

06. apríl 2017

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar - ekki tekið á mikilvægum málum

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar - ekki tekið á mikilvægum málum

Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fjármálastefnu og fjármálaáætlun á grunni hennar fyrir árin 2018-2022 þar sem fram kemur forgangsröðun stjórnvalda í ríkisfjármálum. Að mati ASÍ skapar fyrirliggjandi stefna hvorki grundvöll að efnahagslegum né félagslegum stöðugleika og velferð. Skattalækkanir undanfarinna ára hafa veikt tekjustofna ríkisins og dregið úr aðhaldi ríkisfjármálanna í miðri uppsveiflu. Afleiðingarnar verða þær að tekjustofnar ríkisins nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til velferðar og innviða þrátt fyrir uppsveiflu. Aðhaldið í stefnunni byggir þannig að mati ASÍ á því að nota velferðarkerfið sem helsta hagstjórnartækið til aðhalds í gegnum ófjármagnaðar brýnar velferðarúrbætur og innviðaframkvæmdir ásamt veikingu á barna- og vaxtabótakerfunum. Fyrirséð er að þegar dregur úr umsvifum muni blasa við niðurskurður í opinberum rekstri og/eða skattahækkanir, þvert á hagsveifluna.

Meðal alvarlegra athugasemda ASÍ við efnisatriði fjármálaáætlunar má nefna:

  • Þó fagna beri framlögum til byggingu á nýjum Landspítala á síðari hluta tímabils fjármálastefnunnar er rekstur spítalans enn alvarlega vanfjármagnaður.
  • ASÍ tekur undir mikilvægi þess að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni en ítrekar mótmæli sín gegn því sú breyting sé fjármögnuð að stærstum hluta með hækkun á kostnaði hjá allflestum notendum heilbrigðisþjónustunnar. Langflestir greiða nú of mikið fyrir heilbrigðisþjónustu hér á landi og mikil hætta er á að þessi breyting leiði til þess að enn fleiri neiti sér um heilbrigðisþjónustu en nú er.
  • Áformuð fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 nemur einungis rúmlega helmingunum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020. Ekki er að sjá þess merki að gert sé ráð fyrir viðbótarfjármagi til reksturs hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á tímabilinu þrátt fyrir fyrirséða fjölgun aldraðra og viðvarandi rekstarvanda margra stofnanna.
  • Skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta á bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 mánuði. ASÍ lýtur á þetta sem alvarlega aðför að grundvallar réttindum launafólks.
  • Barna- og vaxtabótakerfin sem eru mikilvæg tekjujöfnunartæki, ekki síst fyrir ungt fólk, eru áfram veikt og fjölskyldum sem fá stuðning úr þessum kerfum mun að óbreyttu halda áfram að fækka.
  • Hámarksgreiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði hækka í 600 þúsund krónur á mánuði í áföngum fram til ársins 2020 en engin áform eru um að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði líkt og ASÍ hefur lagt áherslu á.
  • Ekki stendur til að gera löngu tímabærar breytinga á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega, fyrr en á árinu 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar áfram við flókin, ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.

 

 

 

Twitter Facebook
Til baka