Um ASÍ
- Forsíða
- Alþýðusamband Íslands
- Samstarf
- Norrænt samstarf
Norrænt samstarf
Samvinnan á Norðurlöndunum hefur alla tíð haft ríkt félagslegt inntak og var sem slík lengi vel einstök í alþjóðlegu samstarfi. Það var samvinnan á Norðurlöndunum sem skóp „norræna líkanið", hina norrænu samfélagslausn.
Fram undir lok síðustu aldar var samstarfið á norrænum vettvangi þungamiðjan í alþjóðastarfi Alþýðusambandsins. Aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, og víðtæku samstarfi Evrópuríkja á fjölmörgum sviðum og aukið mikilvægi alþjóðasamstarfs, hafa kallað á breyttar áherslur í alþjóðastarfi ASÍ.
Norræna samstarfið er í dag ein af þrem megin stoðunum í alþjóðastarfi ASÍ.
Löng hefð er fyrir nánu samstarfi samtaka launafólks á Norðurlöndunum, sem þróast hefur og tekið breytingum í samræmi við þróunina á alþjóðavettvangi. Í dag byggir þetta samstarf á skoðanaskiptum, sameiginlegri stefnumótun og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum. Segja má að viðfangsefnin séu þríþætt:
- Að hafa áhrif á norrænt samstarf og þróunina á Norðurlöndunum og á norðlægum slóðum.
- Að samræma sjónarmið og vinna að sameiginlegum áherslum á Evrópuvettvangi. Þá hafa norrænu verkalýðssamtökin lagt ríka áherslu á stuðning við starf verkalýðshreyfingarinnar í Eystrasaltsríkjunum.
- Að samræma stefnu og starf norrænna verkalýðssamtaka á alþjóðavettvangi, einkum innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, og í Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga, ITUC.
Mikilvægasti samstarfsvettvangurinn fyrir ASÍ er Norræna verkalýðssambandið, NFS, sem myndað er af heildarsamtökum launafólks á Norðurlöndunum. NFS er viðurkenndur fulltrúi launafólks á Norðurlöndunum á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og gegnir mikilvægu ráðgjafarhlutverki gagnvart þessum aðilum. Þá hafa heildarsamtök launafólks innan NFS víðtækt samráð og samstarf varðandi málefni Evrópu og á vettvangi Evrópusambands verkalýðsfélaga, ETUC. Sama gildir um starf þessara samtaka á vettvangi ILO og ITUC. M.a. er rekinn sérstakur skóli fyrir forystufólk og félaga í verkalýðsfélögum á Norðurlöndunum í tengslum við þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
Alþýðusambandið á aðild að Verkalýðshreyfingunni í Norður-Atlantshafi, VN, ásamt samtökum launafólks í Færeyjum og á Grænlandi. VN samstarfið er vettvangur fyrir upplýsingamiðlun og sameiginlega stefnumótun er varða verkalýðshreyfinguna og félagsmenn hennar í aðildarríkjunum. Á síðari árum hafa áherslurnar í samstarfinu einkum beinst að þróun vinnumarkaðs- og kjaramála og málefni norðurslóða með sérstakri áherslu á hafið og náttúrunýtingu.
SAMAK er vettvangur fyrir samstarf alþýðusambandanna og jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndunum sem á sér meira en aldarlanga sögu, þar er fjallað um sameiginlegar áherslur aðildarsamtakanna til samfélagsmála og alþjóðavæðingarinnar. ASÍ hefur verið óvirkur aðili að þessu samstarfi nú um nokkurra ára skeið.
Alþýðusamböndin á hinum Norðurlöndunum:
Danmörk: www.lo.dk
Noregur: www.lo.no
Svíþjóð: wwwlo.se
Finnland: www.sak.fi