Stefna ASÍ

Velferðarmál

Velferðarkerfið er grundvallarþáttur í lífsgæðum launamanna, fjölskyldna þeirra og þjóðfélagsins alls. Velferðarkerfið er jafnframt hluti grundvallarmannréttinda og forsenda þess að hægt sé að skapa og varðveita þjóðfélagslega samstöðu og þar með þjóðfélagslegan frið og samkennd manna á milli. Velferðarkerfið er óaðskiljanlegur hluti félagslegrar stefnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, til að varna og vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun. Velferðarkerfið getur, ef þjóðfélagsleg samstaða næst um að það eigi að dreifa félagslegri ábyrgð, aukið mannlega reisn, jafnræði og félagslegt réttlæti. Það er einnig mikilvægt hvað varðar pólitíska aðlögun, valddreifingu og þróun lýðræðisins.

Velferðarkerfið getur, ef rétt er með það farið, aukið framleiðni með því að veita greiðan og jafnan aðgang að læknisþjónustu, menntun, tekjuöryggi og félagslegri þjónustu. Samspil öflugs efnahagskerfis og velferðarkerfis, auk virkrar stefnu í atvinnumálum, stuðlar að sjálfbærri félagslegri og efnahagslegri þróun. Skilvirkt velferðarkerfi auðveldar tæknibreytingar í atvinnulífinu, með því að skapa grundvöll fyrir hreyfanleika og aðlögunarhæfni vinnuafls. Þannig er velferðarkerfið ekki kostnaðarliður fyrir fyrirtækin, heldur fjárfesting í fólki og mannauði sem auðveldar þeim að aðlagast nýjum og breyttum skilyrðum á tímum hnattvæðingar og skipulagsbreytinga. Þannig er og verður velferðarkerfið sífellt mikilvægara fyrir bæði fólk og fyrirtæki.

Velferðarkerfi á að hvíla á nokkrum grundvallargildum. Það á að tryggja öllum ákveðin lífsgæði, það á að hvíla á einstaklingsbundnum félagslegum réttindum og þjónustan á að vera góð. Hlutfall hins opinbera í þjónustu á að vera hátt og framkvæmdin á að vera dreifð. Mikilvægir þættir velferðarkerfisins sem lúta að réttindum á vinnumarkaði, eiga að vera á ábyrgð aðila vinnumarkaðarins. Velferðarkerfið á að stærstum hluta að vera fjármagnað með beinum og óbeinum sköttum og greiðslum launafólks og atvinnurekenda í samtryggingarsjóði vegna afkomu- og áfallatrygginga. Aðilar vinnumarkaðar eiga að gegna lykilhlutverki við uppbyggingu og skipulag á vinnumarkaði.

Á grundvelli slíks kerfis er hægt að sameina mikinn hagvöxt og tiltölulega réttláta skiptingu þess arðs sem skapast. Það á að vera hægt að byggja upp samfélag, sem tryggir öryggi flestra og tækifæri fyrir marga. Það á að auka lífsgæði fólks sem býr við fátækt og örbirgð og tryggja lífskjör og velferð sem eru meðal þess besta sem þekkist í heiminum.

Með uppbyggingu velferðarkerfisins er hægt að sýna fram á, að það er ekki þversögn, heldur órjúfanleg samstaða milli samfélags og frelsis, efnahagslegrar þróunar og félagslegrar tekjuskiptingar.

Verkalýðshreyfingin telur að með niðurskurði, byggðum á skammtíma sjónarmiðum, úrræðaleysi stjórnvalda við endurnýjun og stjórn kerfisins, aukinni einstaklingshyggju og markaðshyggju hafi grunnstoðir velferðarkerfisins veikst. Þau grundvallargildi sem velferðarkerfið byggði á, standi í vaxandi mæli höllum fæti og sýnt að sífellt stærri hópar fá ekki þá þjónustu og aðstoð sem nauðsynleg er til að forða þeim frá fátækt og félagslegri einangrun. Í alltof mörgum tilfellum er aðgangur að þjónustu að verða grundvallaður á tekjum og efnahag.

Alþýðusamband Íslands hefur skilgreint það sem forgangsverkefni í starfi sínu, að endurskoða og treysta velferðarkerfið út frá manngildis- og jafnréttissjónarmiðum. Með því að tryggja öryggi og velferð flestra, er lagður grunnur að öflugra og sveigjanlegra hagkerfi, sem aftur leggur grunn að öruggari fjármögnun velferðarkerfisins.

Alþýðusamband Íslands telur að velferðarkerfið eigi að standa á eftirfarandi fjórum meginstoðum, til þess að geta jafnað lífsgæði landsmanna:

 • Menntakerfi. Menntakerfið er mikilvægur þáttur í að auka lífsgæði og uppbyggingu og þróun velferðarkerfisins. Menntun fyrir alla leggur grunn að virkri þátttöku almennings í lýðræðislegri umræðu, skapar forsendur fyrir stöðugleika og kemur í veg fyrir félagslega einangrun. Fyrir þjóðfélagið treystir menntun þannig grundvöll lýðræðisins. Fyrir einstaklinga treystir góð menntun stöðu og öryggi launafólks í síbreytilegu atvinnulífi og dregur úr áhættu af atvinnuleysi. Markmið menntakerfisins á því að vera, að allir eigi rétt á námi og hafi tækifæri til að nýta sér það, hvort sem um formlega menntun, símenntun eða endurmenntun er að ræða.
 • Umönnunarkerfi. Miklar breytingar hafa orðið á fjölskyldumynstri á Íslandi. Þar hafa farið saman þarfir atvinnulífsins fyrir vinnuafl og krafa um betri efnaleg gæði fjölskyldna. Mikil atvinnuþátttaka Íslendinga kallar á breytt skipulag við umönnun barna, aldraðra og langveikra.
 • Heilbrigðiskerfi. Skilvirkt og vel verkskipt heilbrigðiskerfi sem tryggir öllum aðgang að góðri þjónustu og sem nær jafnt til líkamlegra og andlegra þarfa, er mikilvæg forsenda fyrir því að skapa og viðhalda öryggi og lífsgæðum.
 • Tryggingakerfi. Tekjulegt öryggi, afkomutrygging þrátt fyrir áföll, er mikilvæg forsenda fyrir því að koma í veg fyrir fátækt og jafna lífsgæðum.

 Alþýðusamband Íslands telur að velferðarkerfið eigi að grundvallast á eftirfarandi:

 

 • Aðgengi fyrir alla eftir þörfum, en ekki eftir kaupgetu eða efnahag.
 • Gæðum, fjölbreytni og sveigjanleika
 • Fjármögnun með réttlátu skattkerfi.
 • Lýðræði sem tryggir almenningi innsýn og tækifæri til þess að veita stjórnvöldum aðhald.

     Til að mæta þessum skyldum velferðarsamfélagsins er mikilvægt að skilgreina hvaða aðilar það eru sem bera beina og óbeina ábyrgð á velferðarkerfinu og hvaða hlutverki þeir eigi að gegna við framkvæmd þess. Þeir aðilar sem koma að málinu eru ríki, sveitarfélög, atvinnurekendur, samtök launafólks, ýmis frjáls félagasamtök og hagsmunahópar neytenda og notenda.

 

 Áherslur ASÍ:

 • Hafnar verði formlegar viðræður milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um skýrari verkaskiptingu milli almannatrygginga og lífeyrissjóða vegna lífeyris og örorkubóta.
 • Afkomuvanda eldri borgara, sem hafa lítinn eða takmarkaðan rétt í lífeyrissjóðum, verði mætt með hækkun á tekjutengdum bótum og hækkun frítekjumarka vegna tekna úr lífeyrissjóðum, en ekki hækkun grunnlífeyris.
 • Lífeyrissjóðakerfið er í vaxandi mæli að taka við afkomutryggingu eldri borgara, en almenna lífeyrissjóðakerfið verður ekki að fullu komið til framkvæmda fyrr en 2015-20.
 • Afkomuvandi eldri borgara er því tímabundið vandamál samfélagsins og nær til þeirra sem ekki hafa náð að byggja upp full réttindi í lífeyrissjóðunum eða hafa ekki verið á vinnumarkaði.
 • Ekki má búa til kerfi, sem veitir réttindi sem litlar líkur eru á að samfélagið geti staðið undir í framtíðinni.
 • Réttur öryrkja til bóta almannatrygginga taki mið af því að framfærslubyrði þeirra er önnur og meiri en t.d. eldri borgara.
 • Bætur þeirra samanstandi af grunnlífeyri, tekjutengdum þáttum og heimilisuppbót.
 • Við útfærslu á hækkun samsettra bóta öryrkja verði skerðingarmörk heimilistekna endurskoðuð.
 • Atvinnuleysisbætur verði tengdari launum.
 • Tryggja verður atvinnulausu fólki starfsendurhæfingu og menntun til þess að treysta stöðu þess á vinnumarkaði.
 • Fram fari heildarendurskoðun á áfallatryggingum, með það að markmiði að:
 • Bæta rétt til launa vegna langtímaveikinda.
 • Bæta rétt til launa vegna veikinda og slysa barna og aðstandenda.
 • Bæta rétt til bóta vegna kostnaðar í tengslum við langtímaveikindi.
 • Tryggt verði í löggjöf að hægt verði að taka upp ný tryggingarsvið á samtryggingargrunni í samningum milli aðila vinnumarkaðar.
   
 • Til þess að tryggja nýsköpun og endurnýjun velferðarkerfisins og aukið kostnaðaraðhald, þarf að skapa betri forsendur og möguleika á að þróa þjónustutilboð frá einkaaðilum. Þau uppfylli það grundvallarskilyrði að tryggja jafnan aðgang óháð efnahag og búsetu en leiði ekki til aukinnar félagslegrar misskiptingar.
 • Þröngir efnahagslegir hagsmunir markaðarins um að skapa viðskipti og hagnað, mega ekki ógna markmiðum um jafnan aðgang, réttlæti og gæði þjónustunnar.
 • Nýta má kosti tilboða frá einkaaðilum við framkvæmd þjónustu til þess að draga úr kostnaði, en ábyrgð á þjónustustigi og gæðum verði hjá opinberum aðilum.
 • Mikilvægt er að þróa og endurnýja aðferðir við stjórnun og eftirfylgni hjá hinu opinbera.
 • Notkun peningalegra hvatakerfa, gæðastjórnunaraðferða og annarra markaðsstjórntækja verði þróuð.
 • Mikilvægt er að safna og birta samanburðarhæfar upplýsingar um gæði og kostnað milli einstakra rekstrareininga hjá hinu opinbera.
 • Stjórnunaraðferðir verði þróaðar, þar sem saman fari völd og ábyrgð við framkvæmd þjónustunnar.
 • Draga verður skörp skil um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í kjarnaþjónustu velferðarkerfisins.
 • Sjúkrahúsin verði undir engum kringumstæðum sett undir skilmála markaðskerfisins, þar sem hagnaðar- og viðskiptasjónarmið verði grundvöllur starfseminnar.
 • Hlutverk og verkaskipting milli heimilislækna/heilsugæslu, sjúkrahúsa, umönnun aldraðra og langveikra og sérfræðiþjónustu verði skýrð út frá þeirri grunnhugsun, að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður einstaklinga í heilbrigðiskerfinu.
 • Heilsugæsla og heimilislækningar verði stórefldar og opnað verði á fleiri rekstrarform. Þjónustan verði áfram á ábyrgð hins opinbera og jafnt aðgengi tryggt.
 • Mikilvægt er að efla almenna öldrunarþjónustu.
 • Brýnt er að setja aukið fjármagn í hjúkrunarrými fyrir aldrað sjúkt fólk og tryggja öruggan rekstur þeirra.
 • Efla verður heimahjúkrun og almenna heimaþjónustu fyrir aldraða þannig að þeim verði í auknum mæli gert kleift að vera í eigin húsnæði sem lengst, m.a. með því að bæta kjör og menntun starfsmanna í heimaþjónustu.
 • Verkaskipting milli sjúkrahúsa og sérfræðilækna verði endurskoðuð.
 • Komið verði í veg fyrir að sérfræðilæknar starfi bæði á sjúkrahúsum og einkastofum.
 • Skoðaðar verði leiðir til þess að fela einkareknum stofum alfarið tiltekin afmörkuð verkefni, sem lúti virku gæða- og kostnaðareftirliti og þar sem aðgengi verði tryggt, óháð tekjum og félagslegum aðstæðum.
 • Stýringu eftirspurnar eftir sérfræðilæknaþjónustu verði breytt til þess að draga úr kostnaði.
 • Stýring með síaukinni gjaldtöku af sjúklingum verði hætt.
 • Tekið verði upp tilvísanakerfi, þar sem almenningi verði tryggt aðgengi að þjónustu sérfræðinga að undangenginni heimsókn til heimilislæknis og gjöld vegna komu til sérfræðinga verði lækkuð verulega.
 • Til boða standi val um að fara beint til sérfræðings, en bæði neytandinn og sérfræðingurinn axli þá meiri ábyrgð á kostnaði við meðferð.
 • Verkefnum heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins verði skipt upp.
 • Heilbrigðisráðuneyti fjalli um uppbyggingu og framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar, framtíðarþróun, gæðamál og forvarnir.
 • Tryggingaráðuneyti fjalli um aðgang og réttindi landsmanna til þjónustunnar.
 • Sjálfstæði Tryggingastofnunar ríkisins verði aukið og tryggt í lögum.
 • Sett verði í lög skýrari ákvæði um samningsfrelsi stofnunarinnar.
 • Skylda hennar til þess að semja við einstaka lækna verði afnumin.
 • Fjölgun sérfræðilækna á samningum verði því aðeins heimiluð að hún falli að þörfum og verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu.
 • Tryggt verði að samkeppnislög nái ekki til heilbrigðiskerfisins. 
 • ASÍ telur mikilvægt að víðtæk samstaða verði um að koma í veg fyrir fátækt á Íslandi, þar sem forgangsverkefnin eru:
 • Lækkun kostnaðar vegna lyfja- og læknisþjónustu.
 • Dregið verði úr gjaldtöku sveitarfélaga vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna og unglinga.
 • Brugðist verði við verulegri hækkun á húsnæðiskostnaði í félagslega húsnæðiskerfinu og skorti á húsnæði.

 
Helstu verkefni ASÍ eru að:

 • Vera virkur þátttakandi og taka frumkvæði í umræðunni í samfélaginu um uppbyggingu og nýsköpun velferðarkerfisins.
 • Vera lifandi vettvangur fyrir skoðanaskipti og stefnumótun verkalýðshreyfingarinnar um velferðarkerfið. Koma fram fyrir hönd aðildarsamtaka sinna gagnvart stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda í þessum málaflokki, í samræmi við löggjöf og ákvarðanir aðildarsamtaka sinna hverju sinni.
 • Standa fyrir opinni umræðu um þær hættur sem velferðarkerfið stendur frammi fyrir vegna ytri og innri kerfislægra vandamála.
 • Vinna að því að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum um réttindi sín í velferðarkerfinu.
 • Velferðarnefnd og miðstjórn ASÍ vinni áfram að mótun stefnu ASÍ í velferðarmálum.
 • Vinna að því að mynda breiða sátt um stefnuna í velferðarmálum.
 • Náið samráð verði haft við fulltrúa hagsmunahópa.
 • Vinna því pólitískt fylgi að hér verði öflugt velferðarkerfi sem tryggir öllum öryggi.
 • ASÍ efni til samstarfs við hagsmunahópa um opinbera kynningu og umræðu um aðgerðir til að treysta stoðir og framtíðaruppbyggingu velferðarkerfisins.